Hermann Sæmundsson ráðuneytisstjóri fylgir Sigurði Inga sem skugginn

Hermann Sæmundsson. MYND AF VEF STJÓRNARRÁÐSINS
Hermann Sæmundsson. MYND AF VEF STJÓRNARRÁÐSINS

Fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og Skagfirðingurinn Hermann Sæmundsson hafa gert með sér samkomulag um flutning Hermanns í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins og mun hann taka við frá og með 1. maí 2024. Hemmi Sæm, sem er sonur heiðurshjónanna Sæmundar Hermannssonar frá Ysta-Mói í Fljótum og Ásu Helgadóttur, sem bæði eru látin, er alinn upp á Skagfirðingabrautinni á Króknum.

Það er Sigurður Ingi Jóhannsson sem er nú fjármála- og efnahagsráðherra en hann var innviðaráðherra þar á undan þar sem Hermann var einmitt ráðuneytisstjóri.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Hermann hafi starfað í Stjórnarráði Íslands frá því í október 1996 en þá réðst hann til starfa sem sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í félagsmálaráðuneytinu. „Hann var skipaður í embætti skrifstofustjóra í sama ráðuneyti árið 2002. Frá 2004 til 2008 var hann fulltrúi félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í sendiráði Íslands í Brüssel en tók við sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að því loknu. Hermann var skipaður skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu í ársbyrjun 2011 en við uppskiptingu þess um mitt ár 2017 tók hann stöðu skrifstofustjóra skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Hermann var skipaður skrifstofustjóri stefnumála í forsætisráðuneytinu í október 2021. Hermann var skipaður ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu í maí 2023.

Hermann var settur ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneyti á árunum 2002 til 2004 og gegndi um langt skeið hlutverki staðgengils ráðuneytisstjóra. Hermann hefur því starfað í Stjórnarráði Íslands í hartnær 28 ár. Hann hefur samhliða embætti gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum í umboði ráðherra. Hermann býr því yfir mikilli og fjölþættri reynslu innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu.

Hermann er fæddur árið 1965, hann tók stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra 1986, lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaraprófi frá Háskólanum í Árósum árið 1996 í stjórnsýslu- og stjórnmálafræði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir