„Draumadróninn verður sá sem ég get setið í sjálfur“
Það má sennilega fullyrða að gamla góða myndavélin, jafnvel þó hún hafi öðlast stafrænar víddir, eigi dálítið undir högg að sækja þessi misserin. Ástæður þess eru að sjálfsögðu snjallsímarnir sem alltaf verða magnaðri myndavélar og síðan drónarnir sem hafa gefið ljósmyndurum alveg nýja vinkla á myndefnið og ótal aðra skemmtilega möguleika til að fanga viðfangsefnin. Einn þeirra sem hafa tileinkað sér nýjustu tækni og vísindi í þessum geira er Halldór Gunnar Hálfdansson, bóndi með svo ótal mörgu fleiru, á Molastöðum í Fljótum.
Hann er ansi naskur á myndefni og oft má sjá árangur erfiðis hans á Facebook, hvort heldur sem það nú eru myndir eða myndbönd. Nýverið rakst blaðamaður á myndir sem hann birti þar sem myndað er beint ofan á hálf súrrealískt landslag í heimasveit hans. Það var því ekki annað í stöðunni en að banka stafrænt upp á hjá Breiðhyltingnum bráðsnjalla í Fljótunum og spyrja hann aðeins út í galdra drónans.
Hver er galdurinn við að taka góðar drónamyndir og er einfalt að nota dróna eða tekur tíma að mastera tæknina? Það er nokkuð einfalt komi maður auga á uppsetningu myndar sem maður telur henta. Það er auð-velt að fljúga DJI drónunum sem ég nota en þetta er eins og veiðar – stundum tekst misjafnlega vel að ná skotum.
Hvaða græjur ertu að nota við myndatökur, ertu líka að nota myndavélar eða síma? Ég á ágæta Sony myndavél sem ég nota minna og minna en drónarnir og síminn eru að taka við, flestir símar hafa ágætis myndavélar og innbyggðan hugbúnað sem fegrar oft myndirnar.
Er ljósmyndabakterían búin að dvelja lengi í þér? Já, frá barnsaldri. Móðurafi minn og faðir tóku mikið af myndum, afi var atvinnuljósmyndari um tíma. Ég fékk framköllunaráhöld í jólagjöf frá foreldrum mínum þegar ég var 14 ára og þá var ekki aftur snúið. Þá eyddi ég álíka miklum tíma í myrkrakompunni við að framkalla eins og unglingarnar eyða í snjallsímanotkun í dag.
Er einhver ein mynd sem þú hefur tekið sem er í mestu uppáhaldi? Mér þótti lengi vænt um mynd sem ég tók af Leó Árnasyni, Ljóni norðursins, en það var áberandi bóhem í Reykjavík þegar ég var unglingur. Hann var að drekka kaffi á Hressingarskálanum, auðvitað með sígarettu í hönd og ég stalst til að taka mynd af honum. Afar sérstakur karakter, fæddur norður á Skaga og var umsvifamikill athafnamaður en endaði sem lífskúnstner í Reykjavík.
Rekur kindur með drónanum
Hvað er spennandi við drónann, ertu að pæla mikið í hvernig drónar eru fáanlegir og er einhver draumadróni á sjóndeildarhringnum? Notkun drónans bætir við þriðju víddinni í myndatökur og gefur þér greiðan aðgang að sjónarhornum sem áður voru ekki aðgengileg. Eins og aðrið græjukallar fær maður pínu fiðring þegar nýr dróni er kynntur til leiks en þróunin í drónasmíðum er ævintýralega hröð. Ég nota kínverska DJI dróna og ég get sannarlega mælt með þeim. Draumadróninn verður sá sem ég get setið í sjálfur.
Margar drónamyndanna sem þú hefur verið að birta sýna pínu klikkað landslag. Seturðu drónann í loftið því þú veist af því að þú gætir náð flottri mynd eða eru munstrin í landslaginu að koma þér á óvart? Það umhverfi sem ég lifi og hrærist í, utanverður Tröllaskagi, sér mér nánast endalaust fyrir myndefni. Oft skapast aðstæður í stutta stund þar sem einhver galdur gerist. Ég hef ekið skólabíl í nokkur ár og er oftast með drónann með mér til að ná andartakinu. Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að uppgötva fornar mannvistaleifar úr loftinu.
Þú ert líka lunkinn við að föndra myndbönd, ferðasögur og dagbækur með drónanum og öðrum tæk-jum. Hvað forrit ertu að nota við framleiðsluna, er þetta einfalt? Til að eiga við myndir og myndbönd nota ég forrit sem fylgja fartölvunni minni, ég hef ekki enn tímt að kaupa mér Photoshop eða önnur myndvinnsluforrit til að vinna með myndirnar.
Er þetta þægileg auka búgrein? Upphaflega keyptum við nokkrir bændurnir saman dróna til að nota við smalamennskur og það hefur heldur betur komið sér vel, sérstaklega eftir að við fengum dróna með áföstum hátalara sem hægt er að reka kindur með. Ég hef alltaf haft áhuga á fjarstýrðu dóti, flugvélum og myndatökum og með notkun dróna sameina ég þetta allt í einu áhugamáli.
Er skammdegið vinur myndbandsgerðamannsins eða ertu að dúlla við þetta hvenær sem færi gefst? Skammdegið býður upp á skemmtilega möguleika ekki síður en hásumarið og í Fljótunum er snjóþungt og það býður oft upp á leik með ljós og skugga.
Hvar er hægt að sjá myndböndin? Ég birti myndböndin mín á Youtube síðunni minni og einnig í Facebook hópnum Sveitin okkar - Fljótin, þar sem ýmis konar efni tengt Fljótunum birtist – allir þangað!
Er eitthvað myndband sem þú hefur verið ánægðastur með og hvað tók langan tíma að vinna það? Nei, það stendur ekkert sérstaklega upp úr sem uppáhalds myndband. Það tekur ekki langan tíma að setja saman myndböndin en hins vegar getur það tekið tíma að safna efninu saman.
Persónuverndarlög voru ekki brotin
Ýmsir drónaeigendur hafa lent í óhöppum með drónann sinn. Hefur eitthvað óvænt eða sniðugt hent þig og drónann? Ég hef flogið drónum tæpa 2.000 kílómetra og brotlent þeim þrisvar, í einu tilfellinu réðst spói á fyrsta drónann minn og hann féll úr 60 metra hæð og skemmdist. Í hinum tilfellunum var ég annars vegar að reka stóðhest, og hins vegar að smala kindum og þá fór ég óvarlega og brotlenti. Einu sinni flaug ég frá Strákagöngum þvert yfir Siglufjörð yfir á Siglunes í fjárleit. Ég flaug inn svo kallaðan Nesdal og þá missti ég samband við drónann. Á meðan ég hljóp í hringi og reitti hár mitt og skegg, flaug dróninn sjálfur meðfram fjallinu til baka og skilaði sér í samband sjálfur. Þá var mér létt. Ég sinni veiðivörzlu við Fljótaá og Miklavatn og sinni því nánast eingöngu með dróna. Einu sinni hitti ég konu sem var við veiðar í Fljótaá, hún þurfti að kasta af sér vatni og sat við árbakkann með stöngina úti. Í sama vetfangi beit lax á fluguna og dróninn kom hvæsandi í lágflugi yfir hana. Ég tók reyndar ekki eftir henni þannig að persónuverndarlög voru ekki brotin.
Hvað þarf að varast við notkun drónans? Drónarnir eru með öflugri 360 gráðu árekstrarvörn og svokölluðum „ground radar” sem lætu mann vita fjarlægð frá jörðu þannig að allt flug er tiltölulega öruggt „nema”... nema maður fari í svo kallað „sport mode” en þá getur maður náð 80 km hraða með þeim ókosti að slökkt er á öllum árekstrarvörnum. Og auðvitað er skemmtilegast að fljúga hratt þannig að maður þarf að vera sérstaklega varkár þá. Svo þarf maður að passa að pirra ekki fólk og gæta þess að fljúga ekki of nálægt fólki og húsum. Á sumrin þarf að gæta sérstaklega að fuglalífi og haga flugi þannig að fuglalíf raskist ekki. Spóanum og tjaldinum er sérstakleg illa við drónana.
Nú er hið létt leynilega hótel á Deplum ekki langt frá þér. Hefur aldrei kitlað neitt að njósna pínu um hvaða gestir eru í heimsókn? Við Deplamenn reynum að virða lofthelgi hvors annars en vissulega þarf ég að gæta að mér þegar þyrluskíðatímabilið hefst og lofthelgin hér í Fljótum verður býsna þétt setin. Dróninn lætur mig vita þegar flugvél er í nánd sé hún með svokölluðum ADS-B radarvara og þá hef ég tíma til að bregðast við. Það er gott sam-komulag við Depla hér í sveit og ég ætla að láta gestina þeirra í friði enda hef ég skilning á þörf þessara gesta að vera óáreittir í minni fallegu sveit – nóg er nú áreitið á þetta ágæta fólk úti í heimi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.