Snilldarleikur Stólastúlkna í stórsigri á ÍBV

Stólastúlkur ásamt nokkrum stuðningsmönnum liðsins í leikslok. MYNDIR: ÓAB
Stólastúlkur ásamt nokkrum stuðningsmönnum liðsins í leikslok. MYNDIR: ÓAB

Það varð ánægjuleg fótboltaveisla sem Norðvestlendingum var boðið upp í dag en mikilvægir leikir fóru fram bæði á Blönduósi og á Króknum. Stólastúlkur voru ekki öruggar með sæti sitt í Bestu deild kvenna fyrir leik sinn í dag en þær stóðu þó best að vígi af þeim þremur liðum sem enn voru í fallhættu. Þegar til kom þá hefði Donni þjálfari ekki einu sinni geta látið sig dreyma um aðra eins snilldar frammistöðu og hann, og aðrir sem fylgdust með leiknum, urðu vitni að. Það voru allir að rifna úr stolti í stúkunni yfir spilamennsku liðsins og áræðni. Lokatölur í baráttuleik um sæti í Bestu deildinni? Jú, 7-2.

Aðstæður voru fínar á Króknum, völlurinn enn sem nýr, miðstöðin ekki í gangi og því enginn blástur en vægur hiti. Það var hins vegar dágóður regnúði þannig að flesta leikmenn og fjölmarga áhorfendur mátti vinda að leik loknum. Áður en leikurinn hófst var mínútuþögn til minningar um Violetu, leikmann Einherja, sem lést að slysförum á Vopnafirði.

Leikurinn hófst svo með látið og liðin búin að gera sitt hvort markið áður en þrjár mínútur voru liðnar. Fyrst Murr með hörkuskalla eftir hornspyrnu Laufeyjar og í næstu sókn jafnaði Helena Hekla Hlynsdóttir á meðan Stólastúlkur voru enn að fagna. Heimastúlkur náðu strax undirtökunum í kjölfarið og það lá við að hætta skapaðist í hverri einustu sókn liðsins. Murr kom Stólastúlkum yfir eftir stundarfjórðung, lúrði á fjærstöng og frábær fyrirgjöf Aldísar rataði beint á ennið á henni. Á 22. mínútu var það síðan Aldís María sem fékk sendingu frá Laufeyju og kláraði af harðfylgi. Fimm mínútum síðar skallaði Melissa Garcia hornspyrnu frá Hönnuh í slána og inn og á 35. mínútu átti Aldís aftur sendingu fyrir sem Murr skilaði í markið. Staðan 5-1 og tíu mínútur til leikhlés og nú tóku heimastúlkur fótinn örlítið af bensíngjöfinni. Það hefði þó varla verið hægt að segja mikið þó staðan hefði verið 10-1 í hléi en stúkan var að stærstum hluta sátt við stöðuna.

Það var ljóst í hléi að ÍBV varð að gera betur í síðari hálfleik, helst vinna leikinn, ef þær ætluðu að hanga uppi, því Keflavík var komið yfir gegn liði Selfoss. Þær mættu því nokkuð ákveðnar til leiks en vonir þeirra urðu að engu eftir fimm mínútna leik þegar Murr strauaði varnarmann á vinstri kanti, sendi góða sendingu fyrir sem Aldís missti af en á bak við hana var María Dögg sem tók boltann á lofti og flengdi honum í markið. Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð en Murr gerði fjórða mark sitt á 78. mínútu. Fékk þá stungu inn fyrir frá Hugrúnu og var á auðum sjó, setti boltann í þverslána og inn. Á 80. mínútu klóruðu gestirnir í bakkann með skondnu marki því Margrét Rún var aðeins búin að vera í markinu í 15 sekúndur þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði eftir kæruleysi í vörninni.

Þar með var nú hasarinn búinn og hamingjusamir heimamenn fögnuðu Stólastúlkum í leikslok, enda liðið búið að tryggja áframhaldandi veru í Bestu deildinni sem var jú meginmarkmið sumarsins. Liðið spilaði glimrandi vel í dag, jafnvel sinn besta leik frá upphafi, en að öðrum ólöstuðum þá áttu Murr, Beatriz, Aldís María og Laufey Harpa örugglega sinn besta leik í sumar. Hannah Cade var hins vegar kvödd í leikslok en hún virðist hafa ákveðið að halda á önnur mið. Hún hefur heldur betur reynst sterkur liðsmaður í hópi Stólastúlkna. Lið Tindastóls endaði því sumarið í Bestu deildinni í sjöunda sæti með 26 stig – vel gert!

Þá má geta þess að endingu að 147 þúsund krónur söfnuðust til handa fjölskyldu Violetu sem verður að teljast dágott. Vel að verki staðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir