„Dýrin vekja alltaf mikla lukku hjá börnunum“

Áætlað er að ríflega 2000 manns hafi mætt á Sveitasæluna. MYNDIR: ÓAB
Áætlað er að ríflega 2000 manns hafi mætt á Sveitasæluna. MYNDIR: ÓAB

„Sveitasælan má segja að hafi gengið vonum framar þar sem farið var í seinna lagi af stað með undirbúning. En það voru um 30 sýnendur sem mættu til okkar sem ég tel fínt start aftur eftir fjögur ár í dvala,“ segir Sigurlína Erla Magnúsdóttir, formaður Flugu og annar verkefnastjóra Sveitasælunnar sem fram fór í Reiðhöllinni Svaðastöðum í gær, og vísar þar í Covid-pásuna.

„Skipuleggjendur og sýnendur voru hæst ánægðir með daginn og veðrið lék við okkur. Fluga var með veitingasölu þar sem gestir gátu gætt sér á heitum vöfflum, grilluðum hamborgurum og öðrum kræsingum sem reyndist vel,“ segir Sigurlína.

Voruð þið ánægð með mætinguna?„Mætingin fór fram úr björtustu vonum og gaman að sjá svona marga á svæðinu. Áætla má að rúmlega 2.000 manns hafi mætt yfir daginn.“

Var eitthvað sem vakti meiri lukku en annað?„Dýrin vekja alltaf mikla lukku hjá börnunum ásamt hoppuköstulum og hvolpasveitin mætti á svæðið og gaman hvað margir taka þátt í hrútaþukli sem er einn af liðum sýningarinnar. Útisvæðið var glæsilegt og gestir ánægðir með það ásamt því að básarnir inni voru mjög fjölbreyttir og flottir og margir gátu gert góð kaup og bragðað á veglegum veigum ásamt ýmsum skemmtilegum uppákomum.“

Aðspurð um úrslitin í hrútaþukli þá segir Sigurlína að leikar hafi farið þannig að læraþuklari sýningarinnar var Andrés Helgason í Tungu, Eyþór Bragi Bragason var bakþuklari sýningarinnar og hrútaþuklari Sveitasælu 2023 var Björn Björnsson frá Ytra-Hóli. „Kálfasýningin er alltaf skemmtileg og börnin hafa mjög gaman af. Sigurvegari kálfasýningarinnar var Jökull Máni Nökkvason með kálfinn Robin frá Minni-Ökrum, í öðru sæti var Hjálmar Herbertsson og Mína frá Ytri-Hofdölum, í þriðja sæti var Pétur Steinn Jónsson og Lukku-Láki frá Hóli og svo voru veitt sérstök áhorfendaverðlaun sem að þessu sinni komu í hlut Hjálmars Herbertssonar sem var prúðbúinn og heillaði áhorfendur.“

Sigurlína segir það hafa verið gaman að koma Sveitasælunni aftur af stað og vonandi verða sýnendur og gestir jákvæðir að mæta aftur á næstu sýningu. Hún vill í lokin þakka Sigurði Bjarna, hins verkefnastjóra sýningarinnar, fyrir gott samstarf og búgreinum fyrir sitt góða framlag til sýningarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir