Tindastóll í æfingaferð til Spánar
Snemma í morgun héldu meistaraflokkar karla og kvenna Tindastóls í fótbolta til Spánar í æfingaferð. Báðir hópar hafa, frá því í nóvember, unnið að því hörðum höndum að fjármagna ferðina, sem iðkendur greiða úr eigin vasa og má í því sambandi nefna fjáraflanir allt frá bílaþvotti til kleinusölu.
Á Facebooksíðu stuðningsmanna knattspyrnudeildar Tindastóls kemur fram að stefnt sé að því að hvor hópur æfi allt að átta sinnum á Spáni, nánar tiltekið í Albir þar sem gist er á íþróttahóteli með öllu tilheyrandi.
„Þar sem ferðin er í raun bara sjö dagar, þar af einn í ferðalög og annar í frídag - sem nýttur verður til skoðunar um svæðið - þá geta þeir sem klókir eru í stærðfræði séð að oftar en ekki er æft tvisvar sinnum á dag enda ætlunin að nýta þessar frábæru aðstæður sem eru á Albir til fullnustu,“ segir Jón Stefán yfirþjálfari á síðunni.
Hann segir að ætlunin sé að glæða samfélagsmiðla knattspyrnudeildar, sem legið hafa í dvala í vetur, nýju lífi og setja inn efni frá ferðinni og hvetur hann stuðningsmenn til að fylgjast vel með.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.