Sambaboltinn ekki áberandi í Síkinu
Körfuknattleikslið Tindastóls er komið á fulla ferð í undirbúningi sínum fyrir komandi Dominos-deildar átök. Nú um helgina lék liðið tvo æfingaleiki í Síkinu; fyrst töpuðu strákarnir naumlega gegn sprækum Akureyringum en unnu síðan lið Hattar frá Egilsstöðum í gærdag.
Það vantar ekki körfuboltaáhugann hjá Króksurum og vel var mætt í Síkið á föstudagskvöld. Enda voru margir spenntir að sjá nýja risann, Mamadou Samb, stíga fyrstu skrefin með Tindastólsmönnum, en hann kom til landsins nú um miðja viku. Það er erfitt að dæma um getu kappans strax en sannarlega er hann ógnarstór, gríðarlega handleggjalangur og með ágætt skot. Það verður síðan að koma í ljós hvernig hann fellur inn í leik liðsins en einhverjir munu kannski sakna stemningarinnar sem fylgir því að hafa kjarnorkukana í hópnum – Samb treður nánast bara með því að teygja úr löngutöng!
Hvorki Þór né Tindastóll voru fullmönnuð á föstudag. Darrel Lewis og landsliðsmaðurinn Tryggvi Hlínason léku ekki með Þór og U20 landsliðshetjurnar Pétur og Viðar voru fjarri góðu gamni hjá Stólunum líkt og og Seck Abdoulaye sem enn er ekki kominn til liðs við félaga sína. Stólarnir byrjuðu leikinn betur en fljótlega náðu Þórsarar undirtökunum með Danero Thomas í banastuði en hann gerði alls 37 stig í leiknum. Sömuleiðis reyndist Þröstur Leó sínum gömlu félögum ansi erfiður. Það var loks í fjórða leikhluta sem Tindastólsmenn náðu góðum kafla og jöfnuðu þá leikinn. Tveir magnaðir þristar frá Thomas í liði Þórsara, sem var þó undir eftirliti hjá Samb, bjuggu til forskot á lokamínútunum og Þórsarar sigruðu 82-86.
Pétur Birgis bættist í hópinn hjá Stólunum gegn Hetti í gær og hann var snöggur að sýna gestum í Síkinu hvað hann getur. Líkt og í leiknum gegn Þór þá virtist karfan ekki vera besti vinur Stólanna, meira svona eins og óþolandi ættingi sem leikmenn höfðu lítinn áhuga á að hitta! Það var semsagt ansi mikill haustbragur á leik Stólanna en þeim gefst færi á að hnoða liðinu saman í komandi æfingaferð til Tenerife nú í september. Pétur var snöggur að klára af tankinum gegn Hetti, hann virtist fá heiftarlegan krampa í byrjun síðari hálfleiks og kom ekki meira við sögu. Í kjölfarið náðu gestirnir að saxa verulega á forskot Tindastóls en heimamenn náðu þó að sigla heim nokkuð öruggum sigri í lokafjórðungnum. Lokatölur 80-70.
Það er að sjálfsögðu lítið að marka æfingaleiki á borð við þessa. Markmiðið að koma mannskapnum á ferðina á ný, spila inn nýja leikmenn og þess háttar. Í liði Tindastóls sýndu nýju mennirnir Björgvin og Caird ágæta takta og ættu að verða góður styrkur á komandi tímabili. Þeir „gömlu“ voru samir við sig en ungu peyjarnir náðu ekki að sýna sínar bestu hliðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.