Yfirburða sigrar U18 landsliðs stúlkna í körfuknattleik
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er ekki eina landslið Íslands sem er að standa sig vel þessa dagana en U18 ára landslið stúlkna í körfubolta vann stórsigra á frænkum sínum frá Danmörku og Noregi á Norðurlandamóti yngri landsliða í körfuknattleik sem haldið er í Finnlandi. Í liðinu er að finna tvo Skagfirðinga og eina frá Reykjum í Hrútafirði. Næst mæta þær Svíum.
Um þessar mundir stendur Norðurlandamót yngri liða í körfuknattleik yfir í Finnlandi en U16 og U18 lið drengja og stúlkna héldu út síðastliðinn laugardag.
Á sunnudaginn var, unnu U18 ára landslið stúlkna Dani með öruggum hætti en leikurinn fór 39 - 62, Íslandi í vil. Silvía Rún Hálfdánardóttir var allt í öllu í leiknum en hún skoraði 17 stig, var með 6 stolna bolta og 8 fráköst. Þær Dagbjört Dögg Karlsdóttir, frá Reykjum í Hrútafirði, Linda Þórdís B. Róbertsdóttir og Bríet Lilja Sigurðardóttir, úr Skagafirðinum fengu allar mínútur í leiknum en Dagbjört Dögg lék tæpar 10 mínútur en hún greip tvö fráköst og sendi eina stoðsendingu. Bríet Lilja skoraði 3 stig og greip 3 fráköst á næstum 9 mínútum. Þá var Linda Þórdís með 2 stig, greip 4 fráköst og gaf eina stoðsendingu á rúmum 9 mínútum. Á karfan.is má sjá frekari útlistingar á leiknum.
Í gær, öttu stúlkurnar kappi við Noreg og unnu stórsigur.
Stúlkurnar komu sterkar til leiks og leiddu nánast frá fyrstu mínútu. Þegar flautað var til leiksloka hafði liðið tryggt sér öruggan sigur, 83-41.
Stigaskor stúlknanna var mjög dreift og komust flestar á blað en Emilía Ósk Gunnarsdóttir skoraði flest stig, 14 alls og gaf þar að auki 4 stoðsendingar.
Stúlkurnar frá Norðurlandi vestra komu allar við sögu í leiknum, mismikið þó. Dagbjört Dögg skoraði 12 stig, tók 2 fráköst og varði 1 skot á tæpum 17 mínútum. Linda Þórdís greip 4 fráköst og varði 1 skot á tæpum 11 mínútum en Bríet Lilja átti tvo stolna bolta og eitt frákast á um 12 mínútum.
Á meðfylgjandi myndbandi má sjá Dagbjörtu Dögg í viðtali eftir leikinn.
Íslensku liðin mæta öll Svíþjóð í dag en hér eru upplýsingar um það hvar hægt er að horfa á leikina í beinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.