„Það eiga bara ALLIR að vera heima“
„Þú mátt alveg hafa það eftir mér en ég held nú bara að Íslendingar séu algjörir hálfvitar!“ Þetta segir Kristbjörn Jón Ásbjörnsson, rafvirki og tækjadellukarl, í samtali við Dreifarann nú í miðjum Covid19-faraldri. „Og þetta er auðvitað ekkert sem ég held, ég vissi þetta alveg. En, en, en hvað var það eina sem fólk var beðið um að gera nú um páskana?! – segðu mér það!“
„Vera heima?“ svarar Dreifarinn hikandi.
„Já nákvæmlega vinur minn. Það er bara það, vera bara andskotans heima. En, en hérna, það ætti nú ekki að vera vandamál eða hvað!?“
„Nei, ég er bara búinn að vera hér að skrifa á netið og svona...“
„Já, þú ert nú auðvitað til fyrirmyndar, ég vissi það auðvitað, en en það er þetta lið sem er hér úti og uppi um allar djöfulsins koppagrundir. Hvað er þetta lið að pæla? En, en ég hérna vissi auðvitað að þetta færi svona, Íslendingar eru svo vitlausir alltaf.“
„Og hvernig komum við í veg fyrir þetta, Kristbjörn?“
„Í veg fyrir? Við verðum bara að stoppa þetta lið af, vera á vaktinni. Ég skal segja þér það vinur minn, ég hérna fór nefnilega suður í vikunni og kom heim með tvo sleða, Indy 850 lagsmaður minn, við erum að tala um keðjudrif og klínfæer innspýtingu, 220 kíóa maskína, sex kúlur eða svo með 5% staðgreiðsluafslætti – alveg borðleggjandi dæmi sko.“
„Og hvað, ertu bara með þá heima í stofu?“
„Heima í stofu?!? Ertu frá þér? Nei nei, við vinirnir höfum verið að vakta fjöllin sko, höfum verið að reyna að fylgjast með, stoppa þetta lið sem er í einhverju rugli upp um fjöll og firnindi. Og þá þarf maður auðvitað að vera á almennilegum græjum, annað er bara vitleysa, það þarf að vera almennilegur mótor í þessu ef maður þarf að elta þessa hálfvita. Það er auðvitað alveg borðleggjandi.“
„Er það lögreglan eða björgunarsveitirnar sem hafa verið að biðja ykkur um þetta?“
„Lögreglan? Nei nei, við bara ákváðum þetta svona strákarnir, þetta er bara svona góðverk sem hérna við höfum ekkert verið að láta vita neitt af. Það verður að stoppa þetta bull, þetta er svo einfalt, það eiga bara ALLIR að vera heima. En þú ert seif, þú hefur ekkert farið út, varstu ekki að segja það?“
„Neeeii, nja, ég fór reyndar einn rúnt hérna rétt út fyrir bæ...“
„Einn rúnt!? En, en, en hvað ertu að hugsa maður. Hvað var ég að segja? VERA HEIMA! Þetta er svo einfalt... djís!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.