„Stórauknir skattar á búsetu fólks“
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins boðar stórfellda skattheimtu á fjarlægðir frá höfuðborginni eða næsta stórþéttbýli. Samgöngur og flutningskostnaður ráða miklu um samkeppnishæfni búsetu fólks og atvinnureksturs í landinu. Ísland er strjálbýlt land með miklum vegalengdum. Fjarlægðir á milli fólks er eini reginmunurinn á dreifbýli og þéttbýli.
Stórhækkun skatta á olíur, bensín og hækkun þungaskatts bitnar beint á því fólki sem þarf að sækja lengst þjónustu, hvort heldur heilsugæslu, menntun, aðföng til heimils eða atvinnureksturs. Þetta eru því beinir fjarlægðaskattar á íbúa landsins. Á sama tíma leggja stjórnvöld af eða skerða margvíslega opinbera þjónustu útum hinar dreifðu byggðir. Má þar nefna heilbrigðisþjónustuna sem íbúar á landsbyggðinni þurfa í æ ríkara mæli að sækja til Reykjavíkur með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Hér ber því allt af sama brunni stjórnvöld eru með beinum hætti að skerða lífskjör á landsbyggðinni.
„Ríkisstjórnin með aukna landsbyggðarskatta“
Ríkisstjórnin hefur nú boðað stóraukna skatta á eldsneyti. Bensínlítrinn hækkar um 8 krónur og díselolíu um 18 krónur til viðbótar þeirri skattlagningu sem fyrir er. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu munu tekjur ríkissjóðs af bílasköttum hækka um 10% á milli ára eða sjö milljarða. Þrátt fyrir að margir þessir skattar séu eyrnamerktir til samgöngubóta hyggst ríkisstjórnin hafa það að engu og gerir aðeins ráð fyrir 3% hækkun á framlögum til samgöngumála, en sá málaflokkur hefur verið fjársveltur um árabil. Á sama tíma hefur verið boðað að stærri samgönguverkefni verði fjármögnuð með vegatollum í stað framlaga, sem er ný skattheimta.
„Bæði dýrara og lengra að sækja grunnþjónustu“
Ef stjórnvöld fá sínu framgengt, eru framundan verulegar nýjar álögur á almenning á landsbyggðinni sem þarf að sækja sér grunnþjónustu um æ lengri veg hvort sem það ferðast sjálft á bíl eða nýtir sér flug eða aðrar almenningssamgöngur þar sem slíkt er í boði. Sama má segja um fyrirtæki sem starfa á landsbyggðinni. Enn verður aukið á vanda sauðfjárbænda sem til viðbótar við lægra afurðaverð munu borga meira fyrir olíuna sem þarf til framleiðslunnar. Með hækkuninni munu stjórnvöld ná meiru af bændum en þau hyggjast verja til að koma til móts við lækkað afurðaverð og alvarlegan vanda í sauðfjárrækt. Þótt vissulega beri að gera sem mest til að draga úr olíunotkun og þeirri mengun sem af henni hlýst verður að horfa til þessa hvar þær aðgerðir komi harðast niður´og hvort þær ná sanngjörnum markmiðum sínum. Fólk á landsbyggðinni mun eftir sem áður þurfa að sækja flesta sína þjónustu og aðdrætti um langan veg. Fjarlægðarskattar sem ríkið leggur á búsetu fólks getur auðveldlega snúist upp í beinar umhverfislegar andstæður sínar þegar á heildina er litið.
„Skattlagning fjarlægða hamlar nýsköpun og atvinnuuppbyggingu“
Talið er að hver íbúi á landsbyggðinni eyði að jafnaði yfir 40% meira í rekstur ökutækis síns en íbúi höfuðborgarsvæðisins, sem þýðir 40% meiri skatt til ríkisins. Afleiðingarnar eru tvennskonar. Í fyrsta lagi verður fólk á landsbyggðinni að spara við sig í öðru til að geta greitt þessa auknu skatta. Í öðru lagi rýrnar samkeppnisstaða landsbyggðarfyrirtækja vegna hás flutningskostnaðar og margvíslegur rekstur verður óhagkvæmur úti á landi. Ofan á þetta skattleggur ríkið einnig fjarlægðir með 24% virðisaukaskatti sem er með því hæsta sem þekkist í veröldinni. Sú stefna að skattleggja fjarlægðir hamlar nýsköpun og kemur í veg fyrir uppbyggingu iðnaðar og þjónustu úti á landi. Afleiðingarnar eru einhæfara atvinnulíf, því landsbyggðin á fáa aðra kosti en leggja áherslu á frumvinnslugreinar vegna nálægðar við hráefnið.
„Byggðajafnrétti verði tryggt með mótvægisaðgerðum“
Íslenskt skattkerfi hvetur til byggðaröskunar og mismunar þeim sem búa á landsbyggðinni. Til að sporna við fólksflutningum þaðan er þörf á skattkerfisbreytingum sem leiðrétta þessa mismunun og tryggja jafnrétti óháð búsetu. Nýir skattar sem svo sérstaklega er beint gegn íbúum og búsetu á landsbyggðinni taka engu tali nema til komi beinar mótvægisaðgerðir sem tryggja um leið byggðajafnrétti.
Bjarni Jónsson
Höfundur er varaþingmaður VG í NV kjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.