Stólarnir leita að nýjum erlendum leikmanni eftir að Townes var leystur undan samningi
Karfan.is segir frá því að Tindastóll hefur leyst Darren Townes undan samningi við félagið og hefur miðillin þetta eftir Pieti Poikola þjálfara Tindastóls sem segir að í ljós hafi komið að Tindastóll hafi þörf á öðruvísi leikmanni.
„Eftir þrjár vikur hér við það að kynnast leikmannahópnum kom það á daginn að þarfir okkar eru öðruvísi en þær sem Townes getur sinnt. Ég harma þessi mistök því það er aldrei gott fyrir leikmann að fá reisupassann. Á hinn bóginn er það markmið okkar að vinna deildina og til þess þurfum við að gera þessar breytingar svo það geti orðið að veruleika,“ sagði Poikola en Tindastólsmenn hafa ekki samið við nýjan leikmann að svo stöddu.
„Við höfum unnið hörðum höndum að því að finna nýjan leikmann og höfum séð nokkra góða kosti á löngum lista leikmanna. Ég vonast til að geta klárað þetta sem allra fyrst. Stefán formaður sér um að ganga frá þessum málum en ég hef tilkynnt honum minn kost í stöðunni,“ sagði Poikola sem gat ekki verið þess fullviss að nýr maður myndi ná inn fyrir fyrsta mótsleik, Stólarnir vilji fá annan leikmann eins fljótt og auðið er en fyrst þurfi að semja við hann.
Heimild: Karfan.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.