Stafræn kort og landupplýsingar gerð gjaldfrjáls
Stafræn kort og landupplýsingar í vörslu Landmælinga Íslands hafa verið gerðar gjaldfrjáls með það að markmiði að almenningi á Íslandi sé tryggður greiður aðgangur að upplýsingum um umhverfi og náttúru landsins. Einnig er markmiðið að hvetja til aukinnar notkunnar, úrvinnslu og miðlunar þessara gagna t.d. á sviði ferðaþjónustu, opinberrar stjórnsýslu og í menntakerfinu.
Gögnin eru notuð við ýmis verkefni á vegum stofnana ríkisins s.s. við eignaskráningu, skipulagsmál, náttúruvernd, náttúruvá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir en einnig gagnast þau almenningi og fyrirtækjum með margvíslegum hætti.
Í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti segir að stafræn landakort og aðrar opinberar landupplýsingar s.s. loftmyndir hafi í auknum mæli verið gerð aðgengileg án gjaldtöku í nágrannalöndunum. Í nýlegri erlendri rannsókn kemur fram að í þeim löndum þar sem opinber kortagögn og landupplýsingar eru án gjaldtöku er vöxtur fyrirtækja sem reiða sig á slík gögn 15% meiri en í þeim löndum þar sem gögnin eru seld.
Sjá nánar á vef Landmælinga Íslands www.lmi.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.