Skemmdir á um 1500 fermetrum vallarins

Svona var staðan á vellinum 20. apríl – allt á floti! Nú hefur komið í ljós að völlurinn hefur skemmst á stórum parti.  MYND: ÓBS
Svona var staðan á vellinum 20. apríl – allt á floti! Nú hefur komið í ljós að völlurinn hefur skemmst á stórum parti. MYND: ÓBS

Feykir.is birti í síðustu viku viðtal við Adam Smára Hermannsson, formann knattspyrnudeildar Tindastóls, sem sagði frá talsverðu tjóni sem varð á gervigrasvellinum glæsilega á Sauðárkróki í leysingum þann 20. apríl en þá fór völlurinn undir vatn. Í gær birtist frétt á vef Skagafjarðar þar sem greint var frá því að eftir athugun í liðinni viku liggi fyrir að skemmdir urðu á vellinum á um 1.500 fermetrum, þar af eru um 1.000 fermetrar illa farnir.

Helstu skemmdir eru á undirlagi vallarinns sem rekja má til aðgerðanna laugardaginn 20. apríl þar sem djúp för hafa myndast í völlinn eftir vélknúin tæki.

„Gervigrasvöllurinn, sem tekinn var í notkun fyrir sex árum, er hannaður til að drena sig sjálfur í leysingum og getur það tekið um einn til tvo sólarhringa fyrir svona mikið vatn að fara af vellinum. Þar sem heimaleikur Tindastóls í Bestu deild kvenna var á dagskrá daginn eftir var freistast til að ná vatni af vellinum fyrr sem ekki gekk eftir,“ segor í fréttinni.

Þá kemur fram að unnið sé að fullnaðarmati á skemmdum og mögulegum viðgerðum á vellinum í samráði við birgja og verktaka. „Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 var þegar búið að samþykkja endurnýjun á grasi á hluta þess svæðis sem varð fyrir skemmdum en munu þessar skemmdir koma til viðbótar. Fyrirséð er að flytja þurfi inn efni til viðgerða erlendis frá og má því reikna með einhverjum biðtíma á viðgerðum en vonir standa að þær hefjist á næstu vikum.“ segir í fréttinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir