Sjaldgæfur fornleifafundur á Hegranesinu

Uppgreftrarsvæðið í Keflavík/Mynd: BG
Uppgreftrarsvæðið í Keflavík/Mynd: BG

Í sumar hefur fornleifadeild Byggðarsafns Skagfirðinga í samstarfi við bandaríska fornleifafræðinga frá Massachusetts háskóla í Boston (UMASS) unnið við rannsóknir á Hegranesinu en samstarfsverkefnið kallast Skagfirska kirkju- og byggðarsögurannsóknin. Guðný Zoëga, mannabeinafræðingur og deildarstjóri fornleifadeildar Byggðarsafns Skagfirðinga, hefur stjórnað uppgreftri við bæinn Keflavík í Hegranesi en þetta er annað sumarið af þremur sem verkefnið fer fram.


Að sögn Guðnýjar hefur í Keflavík fundist nokkuð stæðileg kirkjubygging og um 45 grafir í hringlaga kirkjugarði, með misheillegum beinagrindum. Kirkjugarðurinn hefur verið tekinn í notkun um árið 1000 og er í notkun fram yfir árið 1104, líklega lagður af á fyrstu tveimur áratugum tólftu aldar.  

Tveir merkilegir gripir hafa fundist við rannsóknirnar í sumar. Annars vegar er það silfurpeningur, sem fannst í kirkjubyggingunni í Keflavík og hinsvegar er það afar fallegur beinprjónn í víkingaaldarstíl, en á honum er útskorið dýrshöfuð. Beinprjónninn fannst í ruslahaugi á fornbýlinu Koti í landi Hellulands sem er í næsta nágrenni við kirkjustaðinn. Það var Josiah Wagener, forvörður verkefnisins sem annaðist hreinsun á gripunum. Wagener sagði í samtali við blaðamann Feykis að báðir gripirnir virðast við fyrstu sýn nokkuð fágætir. Silfurpeningurinn er svipaður silfurpeningum sem fundist hafa á Norðurlöndunum en hefur þó nokkra þætti sem Wagener telur sérstaka en leitað verður til sérfræðinga um silfurpeninga til að greina hvernig mynt er um að ræða. Beinprjónninn með dýrshöfðinu er afar sjaldgæfur gripur en einungis fjórir slíkir hafa fundist hérlendis. Tveir þessara fjörgurra prjóna hafa þó fundist í Hegranesinu  en auk prjónsins í Koti fannst beinprjónn með dýrshöfði  í kumli í Keldudal sumarið 2003.  Hér að neðan má sjá gripina glæsilegu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir