Rabb-a-babb 221: Nesi Más
Nú er það Hannes Ingi Másson, körfuboltakappi og sölu- og þjónusturáðgjafi hjá VÍS, sem leggst í svæðisvörn með Rabbið. Hann gladdi nýverið stuðningsmenn Tindastóls með því að draga fram körfuboltaskóna á ný eftir að hafa leyft þeim að rykfalla sjálft meistaratímabilið. Nesi er fæddur á því herrans ári 1996 en vinsælustu bíómyndirnar það árið voru Independence Day, ský-strókaþrillerinn Twister og fyrsta myndin í Mission Impossible seríunni. Já og Ólafur Ragnar Grímsson var það ár kjörinn forseti Íslands.
Kappinn er sonur Más Hermannssonar og Sigurbjargar Jóhannesdóttur sem hófust handa við að ala drenginn upp á Laugarbakka en fluttu síðan á Hvammstanga. Nesi fór í FNV að loknu grunnskólanámi og kynntist þar Króksaranum Brynju Sif Harðardóttur. Þau eru í sambúð, búa í Hlíðarhverfinu á Sauðárkróki og eiga saman soninn Óliver Mána. Hann svarar Rabbinu seint í september og þegar hann er spurður um hvað sé í deiglunni þá svarar hann: „Bara þetta hefðbundna; heimilislíf með dass af körfubolta.“
Hvernig nemandi varstu? Ég held að ég hafi nú bara verið svona í meðallagi, hafði oft ekki mikinn áhuga, en þegar maður tók til hendinni þá gat maður þetta alveg.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá voru það líklegast bara pakkarnir.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði mér alltaf að verða lögga. Ég er allavega búinn að prófa það.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Lék mér aðallega með bíla og bolta. Sá áhugi fylgir mér enn í dag.
Hvert er uppáhalds leik-fangið þitt í dag? Ætli það sé ekki bara píluspjaldið í bílskúrnum.
Besti ilmurinn? Setjast inn í nýþrifinn bíl.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Mig minnir að við höfum hist á rúntinum sumarið 2014 En eflaust man hún það betur en ég.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Hlustaði mikið á lagið Play Hard með David Guetta, Ne-Yo og Akon. Maður var soldið í því að brenna lög á diska og þetta var á einum þeirra.
Hvernig slakarðu á? Setjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á eitthvað skemmtilegt en yfirleitt endar það bara þannig að maður situr bara og skoðar eitthvað í símanum.
Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa? Tók þætti á Stöð 2+ sem heita Ex-Wife, þeir komu skemmtilega á óvart.
Hvað bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? Myndi segja að það væri The Dark Knight, hún er ennþá í miklu uppáhaldi í dag.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Ég held mikið uppá körfuboltamanninn Kevin Durant og einnig Messi The GOAT.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ryksuga, ég hef mjög gaman að því. Heppilegt fyrir Brynju þar sem hún hefur ekki eins gaman af því.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég er alltaf reyna að fullkomna lasagnað sem mamma gerir, það er alveg að hafast.
Hættulegasta helgarnammið? Karamelludýr, alveg hrika-lega góð.
Hvernig er eggið best? Harð-soðið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað það er erfitt að fara framúr á morgnana.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Þegar fólk þykist vita allt betur en aðrir (bezzerwizzerar).
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Life is like a box of chocolates. You never know what you're gonna get.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég myndi vilja vera Lebron James. Ætli ég myndi ekki bara eyða deginum í LA, keyra um á flottum bílum og kíkja kannski í smá pick up bolta með einhverjum félögum.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Það er svoleiðis!”
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Jón Gnarr, Pétur Jóhann og Sveppi. Vegna þess að ég er nokkuð viss um að það yrði alveg þó nokkuð hlegið og fíflast.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi fara á tónleika með hljómsveitinni Queen. Þeir eru alveg toppnæs.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Ég tæki flugið til Kína og myndi fara í stærsta vatnsrennibrautagarð í heimi.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:Skella mér í stærsta vantsrennibrautagarð í heimi í Kína. Prufa að búa erlendis. Fara á leik á Anfield.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.