Ótrúlegur áhugi á hestaferðum um söguslóðir
Fyrr í sumar auglýsti Magnús Ólafsson frá Sveinstöðum, hestaferð um söguslóðir morðanna á Illugastöðum og síðustu aftöku á Íslandi í janúar 1830. Í upphafi voru auglýstar tvær, fimm daga ferðir en vegna mikils áhuga hefur hann nú bætt þeirri þriðju við. Það þýðir að nokkrir sem ætluðu í fyrri tvær ferðirnar hafa nú fært sig og bókað í þá síðustu. Þess vegna er nú möguleiki á því að bæta við fólki í hverja af þessum ferðum. Hægt er að vera einungis með hluta af ferðinni ef það hentar fólki.
Allt síðan að Magnús ákvað að fara þessar ferðir hefur hann bætt þekkingu sína á sögunni og alltaf að finna nýja vinkla. Einstaklega áhugaverð saga og hana má segja frá ýmsum sjónarhornum. ,,Ég lofa því engu um að sögurnar verði eins í hverri ferð, en kjarninn verður sá sami. Morðin á Illugastöðum, aftakan á Þrístöpum, forleikur að þessum atburðum og eftirmálin, skilaboð frá löngu látnu fólki,“ útskýrir Magnús.
Fyrsta ferðin hefst fimmtudaginn 19. júlí, sú næsta fimmtudaginn 9. ágúst en lokaferðin hefst laugardaginn 18. ágúst. Magnús sjálfur sér um leiðsögn og sögustundir á áningastöðum. Hver þáttakandi sér um hnakk, hest, nesti og gistingu. Æskilegt að hver þátttakandi hafi a.m.k. tvo hesta en mega vera með þrjá. Að mati Magnúsar duga 2 duglegir hestar alveg í þessa ferð, enda dagleiðir ekki mjög langar og oft stoppað til að segja sögur. Oftast verða lausir hestar reknir en þegar riðið verður yfir Vatnsnes þurfa þátttakendur að vera með lausa hesta í taumi. Engin skylda er að fólk ríði með alla dagana fimm.
Ferðin hefst með sögustund á Þrístöpum að morgni fyrsta dags, en þaðan er riðið að Breiðabólstað í Vesturhópi. Næsta dag verður riðið yfir Vatnsnes og hestar geymdir í hólfi við morðstaðinn á Illugastöðum. Á þriðja degi veður riðið að Tjörn, þar sem Agnes og Friðrik voru grafin eftir að hafa í rúm 100 ár legið á Þrístöpum. Síðan verður farið upp Katadal og yfir í Vesturhóp. Á fjórða degi verður riðið hjá Vatnsenda, yfir Þingeyrasand í Sveinsstaði. Á fimmta degi riðið um Vatnsdal, uppeldisslóðir Agnesar og framhjá Kornsá og Hvammi. Ferðalok verða á Sveinsstöðum. Sögustundir verða hér og þar á áningastöðum.
Milli áningastaða gefst þátttakendum góður tími til að lifa sig inn í þessa mögnuðu sögu, koma með ábendingar og athugasemdir til leiðsögumanns, segja samferðafólki frá sinni sýn á einstaka atburði en fyrst og fremst að njóta þess að ríða um fagurt landslag þar sem sagan lifir. Var það ástin sem togaði Agnesi að Illugastöðum? Hvers vegna er 15 ára unglingsstúlka vistráðin til alræmds kvennamanns? Hver var ástæða þess að Natan náði að heilla hvaða stúlku sem var? Hvers vegna var girnd Natans til kvenna slík sem sögur segja? Því sveik hann þær allar? Hvað er það sem fær fólk til að fremja morð? Var það ágrind eftir peningum eða hafði ástin snúist upp í ólýsanlegt hatur? Hvað veldur þeim sinnaskiptum sem varð á Friðrik, sem ungur ólst upp sem ódæll og ofvirkur prakkari en vann síðan aðdáun húsráðenda og heimafólks á Þingeyrum þegar hann var þar í gæslu síðustu vikurnar fyrir aftökuna? Hvers vegna kom hann syngjandi sálma á leiðinni á aftökustaðinn og ávarpaði mannfjöldann sem þangað hafði verið boðaður til að horfa á hryllinginn? Hvers vegna voru 150 menn skikkaðir til að standa rétt við höggstokkinn þegar öxin sneið höfuð frá búk og blóðið spýttist? Hvers vegna dæmdi Björn Blöndal sýslumaður svo hart í þessu máli? Því lét sýslumaður kyrrt liggja þegar höfuð sakamanna voru horfin af stöngunum morguninn eftir aftökuna? Hvernig stóð á því að Skáld Rósa kennd við Vatnsenda, velgefin og skáldmælt stúlka úr Eyjafirði skildi hljóta þau örlög sem lífið spann, m.a. að verða ástkona Natans, meðan hún var enn gift öðrum manni? Hvernig gat Agnes komið þeim boðum og fengið því framgengt að beinin voru grafin upp rúmri öld eftir aftökuna? Hvers vegna lifir þessi saga svo sterk enn nú nær 200 árum eftir þessa atburði? Er það ekki vegna þess að ástir, afbrýði, ofbeldi og ágirnd eru allt um kring í sögunni? Er ekki einnig forvitnilegt að það komu skilaboð frá löngu liðnu fólki, sem vill komast í vígða mold og rétta sinn hlut vegna þess andstreymis sem það mætti í lífinu?
Frekari upplýsingar má fá hjá Magnúsi sjálfum með því að senda honum skilaboð á Facebook, með tölvupósti á netfangið mao@centrum.is eða síma 898 5695.
/Lee Ann
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.