Hvað gera Ellert, Hrafnhildur og Sigvaldi í The Voice?
Sjónvarpsþátturinn The Voice Ísland á SkjáEinum hefur vakið verðskuldaða athygli en þar hafa fjórir hressir dómarar verið að velja sér lið úr sterkum hópi söngvara. Nú þegar búið er að velja í liðin þá er Feykir fullviss um að minnsta kosti þrír söngvaranna 32 eru ættaðir frá Norðurlandi vestra.
Króksarinn Ellert Heiðar Jóhannsson mætti til leiks dulbúinn sem sjómaður úr Grindavík en hann er sonur Jóa Friðriks og Siggu og búinn að fara mikinn í gegnum tíðina sem söngvari Vonar. Ellert barkaði fram einum laufléttum Queen slagara, I Want To Break Free, og þó það stökkvi ekki allir í gallann eða raddböndin hans Freddie Mercury hafði Ellert lítið fyrir því. Ellert valdi lið Helga Bjöss og í kvöld verður hann fyrstur á svið í einvígi við Gógó þannig að það er vissara að vera með tækið rétt stillt kl. 20:00.
Húnvetningurinn Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir dúkkaði upp með sína frábæru rödd í skjóli Kópavogs. Hrafnhildur vann á sínum tíma Söngvarakeppni framhaldsskólanna fyrir Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra með frábærum flutningi á Lean On Me, ef Feyki skjátlast ekki. Hún er dóttir Sigrúnar og Víglunds frá Dæli, var framkvæmdastjóri Selasetursins á Hvammstanga en starfar nú hjá Ferðamálastofu. Hrafnhildur er í liði Svölu Björgvins.
Þá komst sveitastrákurinn (!) og Skagfirðingurinn Sigvaldi Helgi Gunnarsson áfram með því að syngja Michale Buble blöðruna Everything fyrir dómarana. Sigvaldi stökk á vagninn hjá Sölku Sól (sem er sögð tengdadóttir Skagafjarðar) en hann er sonur Gunna Rögg á Löngumýri og Laufeyjar Jakobs. Sigvaldi er ungur að árum en eiginlega þegar orðinn reynslubolti.
Í liði með Sigvalda er Aldís Fjóla Ásgeirsdóttir, systir Áskels Heiðars og Magna, en hún bjó um tíma á Króknum og örugglega einhverjir Skagfirðingar sem vilja eiga hlut í henni. Ef lesendur hafa fleiri ábendingar um tengsl söngvaranna til Norðurlands vestra þá endilega sendið okkur línu.
Fimmti þáttur The Voice er í kvöld á SkjáEinum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.