Heimir 90 ára
Karlakórinn Heimir í Skagafirði fagnar í dag 90 ára afmæli sínu en stofndagur kórsins er talinn vera 28. desember 1927 og voru stofnendur tíu talsins. Stofnfundur, sem flestir komu úr litlum kór og nefndur Bændakór, fór fram í Húsey og var aðalhvatamaðurinn Benedikt Sigurðsson frá Fjalli.
Á heimasíðu Heimis segir að fyrstu árin hafi kórfélagar starfað við mjög frumstæðar aðstæður. Æft var heima á sveitabæjum þar sem orgel voru til staðar enda var nú ekki mikið um samkomuhús á þessum tímum. En félagsskapurinn stækkaði og áhuginn var mikill. Til æfinga fóru menn aðallega gangandi eða ríðandi en stundum fóru þeir einnig á skíðum. Voru þessar ferðir oft hættulegar og var það augljóst að margir lögðu mikið á sig til að geta verið með í söngnum.
Fyrsti söngstjóri kórsins var Gísli Magnússon frá Eyhildarholti, á eftir honum var tónskáldið Pétur Sigurðsson og á eftir honum kom Jón Björnsson, einnig tónskáld, frá Hafssteinsstöðum en hann stjórnaði Heimi í nærri því 40 ár. Það hafa margir aðrir söngstjórar stjórnað kórnum í gegnum tíðina og þeirra er og margvígslegs fróðleik er getið í samantekt Konráðs Gíslasonar: „Söngur í 60 ár“. Stefán R. Gíslason stjórnaði kórnum nær óslitið frá árinu 1985 utan 2010-2012 þegar Helga Rós Indriðadóttir tók við tónsprotanum og 2014-2015 stjórnaði Sveinn Arnar Sæmundsson kórnum.
Undirleikari til fjölda ára er dr. Thomas R Higgerson píanóleikari.
Hér fyrir neðan er grein um kórinn frá árinu 1948 og birtist í 21. árg. Fálkans
Karlakórinn Heimir i Skagafirði
Þann 23. janúar s.l. minntist karlakórinn Heimir í Skagafirði 20 ára starfsafmælis síns með gleðisamkomu að Varmahlíð, samdrykkju með mörgum ræðum og miklum söng. Kom þar fram nýr einsöngvari, sem fyrir skömmu hefir gengið í kórinn, Árni Kristjánsson, ungur maður með háan, bjartan tenór. Er kórinn nú skipaður 36 mönnum, sem búsettir eru víðsvegar um sveitir Skagafjarðar, flest bændur eða menn, sem sinna landbúnaðarstörfum. Var kórinn mjög hylltur fyrir söng sinn og svo söngstjórinn, Jón Björnsson á Hafsteinsstöðum, sem er einn af stofnendum kórsins og lengstum hefir verið stjórnandi hans. Karlakórinn Heimir var stofnaður þann 27. desember 1927, og munu þeir Benedikt Sigurðsson bóndi á Fjalli og Jón Björnsson hafa átt mestan þátt i stofnun hans. Benedikt hafði áður verið i Bændakórnum, sem starfaði i Skagafirði á árunum 1910—1925. Annar of söngvurum Bændakórsins, Haraldur Jónasson á Völlum, var einnig einn af stofnendum Heimis, en ekki voru Heimismenn margir í byrjun, aðeins 10. Fyrsti stjórnandi hans var Gísli Magnússon bóndi i Eyhildarholti, í eitt ár. Þá tók við Pétur Sigurðsson, er áður hafði verið stjórnandi Bændakórsins, en hans naut við aðeins skamma stund. Síðan, eða í 18 ár, hefir Jón Björnsson stjórnað kórnum.
Ekki skipulagði kórinn starfsemi sína fyrr en haustið 1935. Þá voru samin lög fyrir félagið og kosin stjórn í fyrsta sinn. Var fyrsti formaðurinn Pálmi Jónasson bóndi, Álfgeirsvöllum, síðan Ingimar Bogason, en frá 1940 hefir Gísli Stefánsson bóndi í Mikley verið formaður félagsins. Með honum í stjórn eru þeir Björn Ólafsson bóndi á Krithóli og Halldór Benediktsson bóndi
á Fjalli. Um félagið Heimi hefir oltið á ýmsu. Hefir félögum oft fækkað mjög vegna brottflutnings þeirra úr héraðinu, og stundum legið við borð, að starfsemin yrði að hætta af þeim sökum. En jafnan hafa þeir, sem eftir voru, þá safnað saman nýjum mönnum og haldið ótrauðir áfram, en eins og gefur að skilja fer þá mikill tími í að kenna nýliðunum og samæfa þá, og allt slíkt erfitt, þegar um langan veg er að sækja æfingar. Alltaf hefir þetta þó tekist
vel fyrir mikinn dugnað söngmannanna og frábæra elju söngstjórans. Alls hafa nú starfað í kórnum 85 manns. Hann hefir haldið 72 opinberar söngskemmtanir og oft þess utan sungið á útisamkomum og við jarðarfarir. Nú á seinni árum hefir kórinn tekið til meðferðar all umfangsmikil lög. Kórinn hefir sungið víða um Skagafjörð, farið söngfarir til Húnavatnssýslu og Eyjafjarðar og tvisvar mætt á söngmótum á Akureyri, þeim sem Samband Norðlenskra
karlakóra hefir haldið þar. Verður naumast annað sagt en að starfsemi kórsins sé orðin allmikil, einkum þegar litið er á allar aðstæður. Söngmennirnir eru dreifðir um stórt svæði, margir þeirra eru einyrkjar á jörðum sínum og hafa mörgum störfum að sinna. Til skamms tíma hafa þeir ekki haft aðra farkosti en hesta eða fætur sína, er þeir hafa sótt æfingar. Sumir þeirra þurfa að sigra farartálma, eins og t. d. bræðurnir í Eyhildarholti, sem eiga yfir Héraðsvötnin að sækja. Þeir bræður eru 8 í kórnum, og eru þess ekki einsdæmi, að þeir hafi
vaðið Vötnin á leið sinni á æfingar og komið þangað mittisvotir eða meira. Hvernig Skagfirðingar meta starfsemi karlakórsins Heimis, sést ef til vill best á því, að sýslunefnd
Skagafjarðar hefir sæmt söngstjórann, Jón Björnsson, heiðursgjöf fyrir hið mikla starf hans, og mun öllum hafa þótt hann maklegur þeirrar viðurkenningar.
H. K.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.