Haldið upp á Alþjóðlega ferðamáladaginn á Hólum
Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hélt upp á Alþjóðlega ferðamáladaginn sl. þriðjudag með morgunverðarfundi á veitingastaðnum Undir Byrðunni á Hólum. Á vef Hólaskóla segir að ferðamál á Íslandi hafi verið þar til umræðu og sett í stærra samhengi með því að tengja markmið Alþjóðaferðamálastofnunarinnar og ferðamál í okkar nánasta umhverfi.
„Staðarnemendur í námskeiðinu Ferðamál notuðu þetta tækifæri til að skoða stefnumótun í ferðamálum á heims- og heimavísu og bera saman markmið UNWTO og ferðaþjónustunnar í Skagafirði og skiluðu því verkefni með því að undirbúa þennan fund,“ segir á síðunni.
Auk nemenda og kennara mættu nokkrir íbúar á Hólum og starfshópur Sveitarfélagsins Skagafjarðar um ferðamál nýtti tækifærið til að taka þátt í umræðunni.
„Kunnum við þátttakendum bestu þakkir fyrir að gefa sér tíma til að hitta nemendur og skiptast á skoðunum við þá. Einnig Ferðaþjónustunni á Hólum fyrir hollan morgunmat - sem var táknrænt fyrir það þema sem fékk einna mesta umfjöllun á fundinum - mat sem tækifæri í þróun ferðaþjónustu.“
Fleiri myndir frá fundinum fá skoða á vef Háskólans á Hólum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.