Fundað með foreldrum vegna raka - ósáttir við að ekki hafi verið pöntuð sýnataka fyrr
Raki í húsnæði yngra stigi leikskólans Ársala á Sauðárkróki hefur valdið áhyggjum nokkurra foreldra barna leikskólans sem óttast að þar kunni að vera myglusveppur. Boðað var til fundar með foreldrum vegna þessa í gær þar sem foreldrar voru upplýstir um stöðu mála og fyrirhuguðum aðgerðum leikskólans.
Auk foreldra og starfsfólks leikskólans sátu fundinn Ingvar Gýgjar Sigurðarson verkefnastjóri hjá Veitu- og framkvæmdasviði Svf. Skagafjarðar og Guðmundur Þór Guðmundsson umsjónarmaður fasteigna sveitarfélagsins til að ræða um húsnæði leikskólans og svara spurningum foreldra.
Ljóst er að raki sækir alltaf í suðvestur og norðvesturhorn byggingar yngra stigs Ársala við Víðigrund, þar sem deildirnar Lækur og Lón eru til húsa. Fram kom að ekki hefur verið tekið sýni og skorið úr um hvort myglusvepp sé þar að ræða, og ef svo sé hvort hann hafi áhrif á heilsu fólks, en sveitarfélagið hefur í samstarfi við Heilbrigðiseftirlitið, pantað sýnatöku. Hún verður framkvæmd á næstu dögum og næstu skref ákveðin í framhaldi af því.
Á fundinum voru m.a. staddir foreldrar barna, sem hafa átt við ítrekuð og langvinn veikindi að stríða, sem þeir telja að kunni að stafa af óheilsusamlegu andrúmslofti í leikskólanum. Þeir voru ósáttir við að ekki hafi verið pöntuð sýnataka fyrr, en minnst er á umræddan raka í Ársáætlun leikskólans 2014-2015. Fyrir vikið hafi heilsu barnanna verið stofnað í hættu. Þar að auki sögðust þeir vilja aukið upplýsingaflæði varðandi framvindu mála.
Viðstaddir voru sammála um að hraða þurfi greiningu á því hvort um myglusvepp sé að ræða og skerpa þurfi verkferla varðandi myglusvepp í framtíðinni svo að ekki komi upp samskonar staða á ný.
Nánar verður fjallað um málið í Feyki sem kemur út í næstu viku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.