Foreldraverðlaunin til Varmahlíðarskóla
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 18. sinn í gær við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir afhenti verðlaunin.
Verkefnið Sveitadagar að vori í Varmahlíðarskóla hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2013. Markmiðið með verkefninu er að nemendur kynnist störfum í sveit og læri þannig að þekkja mikilvægi landbúnaðar í heimahéraði. „Verkefnið tekur vel á tengslum grunnskólans við nærsamfélagið og með því nær skólinn að tileinka sér tengsl og þekkingu á sinni heimabyggð sem eru eitt af einkennum skólastarfsins. Verkefnið sýnir þá hugvitsemi og elju sem foreldrar og starfsfólk skólans hafa og með því færa þau aukna þekkingu til nemenda skólans á umhverfi sínu“ að sögn Brians D. Marshall, formanns dómnefndar.
Hvatningarverðlaun og sérstök viðurkenning voru einnig afhent við þetta tækifæri.
Hvatningarverðlaun 2013 hlaut Barnabær– verkefni sem starfrækt er á Stokkseyri og Eyrarbakka og er samstarfsverkefni Barnaskólans, foreldra og aðila úr nærsamfélaginu á þessum tveimur stöðum. Markmiðið með verkefninu er að upplýsa nemendur um það hvernig hagkerfið virkar. „Verkefnið er vel útfært og gert spennandi fyrir ungmenni og gerir þau færari að takast á við hugtök framtíðarinnar i efnahagsmálum sem vonandi skilar sér í hagsæld þeim til handa í framtíðinni,“ segir Brian.
Sérstaka viðurkenningu fengu SAMFOK – Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík. Samtökin eiga 30 ára starfsafmæli í ár. Á þessum tíma hafa samtökin beitt sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf og staðið vörð um réttindi barna til menntunnar og þroska.
Í ár bárust 28 gildar tilnefningar til verðlaunanna.
Dómnefnd 2013 var skipuð eftirfarandi aðilum:
- Brian Daniel Marshall, formaður dómnefndar, stjórn Heimilis og skóla
- Amalía Björnsdóttir, Menntavísindasvið Háskóla Íslands
- Haraldur F. Gíslason, Formaður félags leikskólakennara
- Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, formaður foreldraráðs FG
- Sigríður Lára Ásbergsdóttir, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti
- Guðbjörg Jónsdóttir, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
- Guðrún Birna Jóhannsdóttir, verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti
Vodafone kostaði Foreldraverðlaunin 2013 en aðrir styrktaraðilar eru: MK Glerlist, Ikea og Blómagallerí. Heimili og skóli þakka þessum aðilum kærlega fyrir veittan stuðning.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.