Fólksfækkun á Norðurlandi vestra á sér vart hliðstæðu
Íbúum á Norðurlandi vestra hefur frá árinu 1998 fækkað um tæplega 1.000 manns en þann 1. desember sl. voru íbúarnir ríflega 7.000 talsins. Samkvæmt fréttaskýringu sem birt var í Morgunblaðinu þann 27. desember sl. jafngildir fækkunin á þessu tímabili því að allir íbúar Hvammstanga og Skagastrandar hafi horfið af svæðinu.
Helstu skýringarnar sem gefnar eru upp í fréttaskýringunni eru að atvinnutækifærum hefur fækkað, samfara breyttum atvinnuháttum í landbúnaði og sjávarútvegi, og meira er um að ungt fólk, einkum stúlkur, flytji burtu til náms eða vinnu að loknum grunnskóla og snúi ekki aftur í heimabyggð.
Þá kemur einnig fram að dregið hefur verulega úr barnsfæðingum á svæðinu á seinni árum og börn yngri en fjögurra ára eru færri en áður. Þá eru í dag nærri 700 færri ungmenni á aldrinum 0-18 ára á Norðurlandi vestra en voru árið 1998, þar af er fækkunin í Skagafirði um 340 ungmenni.
Ályktun um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa
Þingmenn allra flokka í Norðvesturkjördæmi hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi vegna þessarar íbúaþróunar en þar er lagt til að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í A-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að byggðaröskunin á svæðinu sé mikil og fólksfækkunin eigi sér vart hliðstæðu hér á landi hin síðari ár. Í tillögunni er m.a. lögð áhersla á að nýta betur raforkuna frá Blönduvirkjun og vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, s.s. fyrir gagnaver á Blönduósi.
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, samþykkti í haust að fara í átaksverkefni sem miðar að því að ráðast í aðgerðir til að stemma stigu við brottflutningi yngra fólks af svæðinu og skapa því aukin tækifæri í landshlutanum og var María Björk Ingvadóttir, frístundastjóri hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, ráðin sérstaklega til að stýra þessu verkefni.
Markmið átaksins sé að gera Norðurland vestra enn eftirsóknarverðara til búsetu og starfa fyrir ungt fólk. Aðgerðir hingað til hafi ekki sérstaklega miðast við unga fólkið en nauðsynlegt sé að greina þarfir þessa hóps og væntingar. „Við þurfum að kortleggja stöðuna og sjá hvað er hægt að gera, hvernig við getum styrkt stöðu svæðisins og gert það að betri búsetukosti fyrir yngri kynslóðina. Við vonumst eftir góðu samstarfi í þessu við stjórnvöld, sveitarfélögin, fyrirtækin, skólana og rannsóknarstofnanir á svæðinu,“ segir Bjarni Jónsson formaður SSNV í samtali við Morgunblaðið.
Sláandi tölur
Aðalvandi svæðisins segir María Björk vera brottflutningur ungra kvenna en tölurnar sem bera vitni um það, og brottflutning ungs fólks almennt, segir hún vera sláandi. „Við höfum verið að skoða þróunina á síðustu 10-15 árum, hverjir hafa flutt burt og á hvaða aldri. Það er sláandi að sjá hve hátt hlutfall af stelpum fer strax eftir grunnskóla. Þær koma síður aftur og það skekkir kynjamyndina. Þetta er einn aðalvandi svæðisins og nauðsynlegt að bregðast við honum sem fyrst með öllum ráðum,“ segir María Björk.
„Við viljum að sjálfsögðu ekki að fólk fari héðan burtu. Hér er góð þjónusta og margir kostir í samfélögunum sem þarf að kynna betur fyrir unga fólkinu og efla samstarf skólanna og atvinnulífsins. Virkja grunnskólana betur og fá krakkana oftar í heimsóknir í fyrirtæki á svæðinu,“ segir María Björk.
Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki segir hún vera lykilstofnun í verkefninu en þar er búið að auka verulega námsframboð fyrir unga fólkið og til standi að bæta þar enn við á sviði raungreina og skapandi greina. „Einnig viljum við ná til ungs fólks um allt land sem ekki hefur fundið sig í framhaldsskóla og hætt,“ segir hún í lokin en um 800 nemendur hættu í framhaldsskóla í fyrra og fengu ekki skólavist fyrir sunnan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.