Stóra upplestrarkeppnin

Verðlaunahafarnir Einar Kárason, Íris Helga Aradóttir og Jón Pálmason ásamt Þórði Helgasyni yfirdómara. Mynd: FE
Verðlaunahafarnir Einar Kárason, Íris Helga Aradóttir og Jón Pálmason ásamt Þórði Helgasyni yfirdómara. Mynd: FE

Stóra upplestrarkeppnin í Skagafirði var haldin í gær í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Allir grunnskólarnir í firðinum sendu fulltrúa í keppnina, frá Árskóla komu átta keppendur, frá Varmahlíðarskóla þrír og einn frá Grunnskólanum austan Vatna.

Í upphafi greindi Laufey Leifsdóttir, umsjónarmaður keppninnar í héraði, frá því að þetta er í 17. skiptið sem þessi keppni er haldin hér. Undirbúningur keppninnar hefst á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og fá allir nemendur 7. bekkjar markvissa þjálfun í upplestri og framsögn þar til fulltrúar skólanna hafa verið valdir en það er venjulega gert í lok febrúar eða byrjun mars. Þannig snýst þetta verkefni fyrst og fremst um þjálfun allra nemenda þó nokkrir séu svo valdir að lokum til að keppa sem fulltrúar síns skóla.

Nemendur lásu brot úr sögu Andra Snæs Magnasonar, Bláa hnettinum, því næst ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur og loks ljóð að eigin vali.

Nemendur frá Tónlistarskóla Skagafjarðar sáu um tónlistarflutning.

Það var Jón Pálmason úr Árskóla sem hafnaði í fyrsta sæti í keppninni, í öðru sæti varð Íris Helga Aradóttir, Árskóla og í þriðja sæti varð Einar Kárason frá Varmahlíðarskóla.

Allir þátttakendur fengu sérprentaða ljóðabók eftir Steinunni Sigurðardóttur í viðurkenningarskyni frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess fengu verðlaunahafar peningagjöf.

Til hamingju með árangurinn krakkar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir