Elsti haförn landsins handsamaður við Miðfjarðará
Þau eru ýmis verkefnin sem að koma á borð lögreglunnar, segir á Facebooksíðu embættisins á Norðurlandi vestra. Á laugardag fékk lögreglan á Norðurlandi vestra tilkynningu þess efnis að haförn hefði verið handsamaður við Miðfjarðará en örninn var eitthvað laskaður.
„Tilkynnandinn Þórarinn Rafnsson hafði veitt fuglinum athygli hvar hann átti erfitt með flug, hafði sig á loft en flaug stutt í senn. Fylgdi Þórarinn erninum eftir og kastaði yfir hann úlpu sinni er örninn hafði sig ekki á loft aftur eftir lendingu í háu grasi. Lögreglumenn hittu Þórarinn á heimili hans og eftir samtöl við sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar, var ákveðið að erninum yrði komið suður til skoðunar. Það sem merkilegt var við örninn er að þessi höfðingi er elstur allra þeirra arna sem að fundist hafa á Íslandi. Hafði hann verið merktur við Breiðafjörð 1993 og þá sem ungi og ekki sést síðan. Erninum var færður Miðfjarðarárlax og feitt lambakjöt af vestur húnvetnskum sauð og var mjög sáttur við það. Hans bíður svo ferð suður á land,“ segir á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.