Bolvíkingurinn Hjörtur sigraði í The Voice Ísland

Hjörtur og Ellert bíða eftir niðurstöðu í símakosningunni. MYND: MBL.IS
Hjörtur og Ellert bíða eftir niðurstöðu í símakosningunni. MYND: MBL.IS

Síðasti þátturinn í The Voice Ísland fór fram í gærkvöldi og spennan mikil. Tveir Skagfirðingar, Ellert og Sigvaldi, voru í fjögurra manna úrslitum og því gerðu Skagfirðingar sér nokkrar vonir um að annar þeirra færi heim sem sigurvegari. Það var hinsvegar kraftakrúnerinn Hjörtur Traustason sem hneppti hjörtu þjóðarinnar í gíslingu með því að syngja lagið Ferðalok í tveggja manna úrslitum og stóð uppi sem sigurvegari.

Hjörtur er 35 ára gamall Bolvíkingur, menntaður rafvirki en starfar sem smiður. Hann á tvær dætur og á von á þriðja barninu á nýju ári. Hjörtur er í hljómsveitinni Fjallabræðrum. Hann átti eina eftirminnilegustu innkomuna í þáttinn, söng gamlan Creedence slagara af miklum krafti, og var, auk þess að heilla fólk upp úr skónum með magnaðri rödd sinni og framkomu, býsna lunkinn í lagavali út keppnina.

Það var að sjálfsögðu eitursnjallt að enda þátttökuna og þáttaröðina á því að syngja Ferðalok, þessa seinþreyttu ungversku óperuaríu, sem íslenska þjóðin hefur gert að vara þjóðsöng sínum og við þekkjum best undir nafninu Ég er kominn heim. Lag sem ekki er nokkur möguleiki að flýja undan hér á Fróni þótt maður þyrfti að bjarga lífi sínu með því.

Skagfirðingarnir stóðu sig með prýði

Fyrr um kvöldið var það Sigvaldi okkar Helgi Gunnarsson sem steig fyrstur á svið í keppninni, reyndar eftir að allir keppendurnir fjórir höfðu rúllað leikandi létt í gegnum Stanslaust stuð Páls Óskars. Sigvaldi réðst ekkert á garðinn þar sem hann var lægstur frekar en fyrri daginn, stökk í galla breska krúnersins Sam Smith sem þykir hafa einstaka rödd. Lagið sem hann tók var I'm Not the Only One og það var flóknasti flutningur kvöldsins því söngvarinn þurfti að geta sveiflað sér á milli þess að syngja í falsettu, af mýkt og svo alveg á útopnu. Að framkvæma þetta allt á úrslitakvöldi í The Voice er ekki til að auðvelda málið en Sigvaldi sýndi að það er ekki fátæklega í hann spunnið. Flutningurinn var nánast hnökralaus en ein fyrirbrennsla virtist angra hann.

Næstur á svið kom svo Ellert okkar Heiðar Jóhannsson. Þar skorti ekkert upp á öryggið og kappinn var kominn til að keppa. Það var talið í Queen-rokkarann Don't Stop Me Now og Ellert söng af krafti og öryggi. Það eru ekkert nýjar fréttir að menn smeigja sér ekki auðveldlega í skó Freddie Mercury. Þeir sem sáu minningartónleikana frá Wembley um kappann fyrir rúmum 20 árum vita að þar var aðeins einn söngvari af þeim fjölmörgu sem komu fram sem átti eitthvað erindi í þessi mögnuðu Queen-lög. Nema hvað; þegar Ellert klárað Queen var augljóst að það yrði bara skandall eða bilað símkerfi sem kæmi í veg fyrir að hann færi alla leið í tveggja söngvara úrslitin síðar um kvöldið.

Þriðji keppandinn á svið var Rebekka Blöndal og hún valdi að syngja lagið Call Your Girlfriend eftir hina sænsku Robyn. Lagið flutti hún sem ballöðu og með miklum ágætum en þó virtist ólíklegt að hún færi lengra í keppninni. Það hefur mikið að segja að velja lög sem fólk þekkir vel og þetta ágæta lag fellur ekki í þann flokk.

Síðastur á svið var Hjörtur og hann flutti Stand By Me sem Ben E. King gerði vinsælt fyrir 54 árum. Ekki var hann að heilla undirritaðan með þessum söng en Hjörtur er gríðarlega öruggur á sviðinu og einhver hressilegur sjarmi sem hann býr yfir. Undir lokin setti hann sinn stimpil á lagið og þá var allt klappað og klárt. Ellert og Hjörtur fengu flest atkvæði í símakosningu og þá fluttu þeir hvor sitt lagið svo þjóðin gæti endanlega valið á milli þeirra.

Ellert fór alla leið í úrslitarimmuna gegn Hirti

Þeir sem þekkja til Ellerts hefðu örugglega verið tilbúnir til að veðja öllu sínu á að hann tæki Bon Jovi lag í restina. Það stóð heima. Ellert ákvað að enda á gömlu Bon Jovi snuddunni Bed of Roses, uppáhaldslaginu sínu, og nú var bara gaman hjá honum. Það skein í gegn og allt fumlaust og pottþétt og ekki gat maður séð hvernig Hjörtur ætlaði að toppa þetta... þangað til hann mætti til leiks og kynnti áhorfendum að hann ætlaði að taka Ferðalok. Sem er náttúrulega eins og að mæta í úrslitaleikinn í ensku bikarkeppninni með bæði Ronaldo og Messi í liðinu sínu – sama hversu illa þú spilar, þú getur ekki tapað! Sem var eiginlega einmitt það sem gerðist í The Voice Ísland. Það virtist ekki hafa neitt að segja þó Hjörtur ætti sennilega sína slökustu frammistöðu í þáttunum – hann söng þennan nýja íslenska þjóðsöng til sigurs. Til hamingju Hjörtur!

Fyrsta tímabili af The Voice Ísland er því lokið – þetta reyndist frábær skemmtun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir