Beint í æð í Bifröst - Myndband
Sæluvikustykki Leikfélags Sauðárkróks að þessu sinni er farsinn Beint í æð eftir Ray Cooney sem Gísli Rúnar Jónsson þýddi. Blaðamaður hitti formann leikfélagsins ásamt leikstjóra í kaffispjalli í bakaríinu og forvitnaðist um hvers er að vænta. Leikstjóri verksins, Jóel Ingi Sæmundsson, hefur áður komið við sögu hjá Leikfélagi Sauðárkróks en fyrir þremur árum setti hann upp leikritið Rjúkandi ráð með félaginu. Jóel útskrifaðist úr leiklistarnámi í Bretlandi árið 2009 og hefur síðan þá unnið að ýmsum verkefnum í leikhúsi, sjónvarpi, auglýsingum og fleiru og hefur undanfarið unnið mikið við að gera barnasýningar fyrir leikskóla. Jóel segir að sér þyki gott að vera á Króknum þar sé í raun hægt að gera flest sem mann langar til.
Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir er formaður leikfélagsins. Hún segir bæði verkefni vetrarins hafa verið valin á haustfundi og tekin ákvörðun um leikstjóra. Lagt hafi verið upp með að taka gamanleikrit til sýningar og farsi eftir Ray Cooney hafi þótt góður kostur enda hefur leikfélagið áður sett up verk eftir hann.
En skyldi ekki vera erfitt að manna verk hjá áhugaleikfélagi sem setur upp tvær sýningar á ári?
„Nei, það gekk ágætlega og komust í raun færri að en vildu,“ segir Sigurlaug. „Helstu vandræðin voru þau að leikararnir væru helst til of ungir fyrir karakterana í verkinu en þetta sleppur samt alveg.“
Allir leikararnir sem verða á sviðinu núna hafa leikið áður með leikfélaginu, með mismikla reynslu þó. Guðbrandur Guðbrandsson, sá margreyndi leikari, fer með hlutverk læknisins sem er vendipunkturinn í verkinu en alls eru hlutverkin ellefu í höndum jafnmargra leikara. Í heildina koma um 30 manns að sýningunni á einhvern hátt.
Beint í æð er dæmigerður farsi eins og þeir gerast bestir. „Leikritið fjallar um lækni sem er að fara að halda ræðu lífs síns fyrir framan 30 erlenda taugasérfræðinga þegar í ljós kemur að hann á barn, 17 ára unglingsstrák, sem er í mikilli tilvistarkreppu og er að leita að föður sínum,“ segir Jóel. „Læknirinn er ekki alveg í stakk búinn til að takast á við þessar fréttir á staðnum, hann er að fara upp á svið að halda sína ræðu svo hann reynir að ljúga sig út úr þessu sem leiðir til meiri lygi. Hann er giftur en og svo kemur önnur kona í spilið, gamalt viðhald, sem bankar upp á og hann þarf að spinna sig út úr vandræðunum. Þetta fjallar um lygina, ein lygi kallar á aðra. Þetta er þessi týpíski farsi, fullur af misskilningi og lygi og framhjáhaldi og ást. Það sem er sérstakt við þetta leikrit er að það gerist á tveimur tímum, þ.e. á jafnlöngum tíma og verkið tekur í sýningu, frá 10:45 til 12:45 að morgni. Við ætlum samt ekki að hafa morgunsýningar,“ bæta þau við .
Leikhúsgestir mega sem sagt vænta bestu skemmtunar í Bifröst eða eins og Sigurlaug segir, „þetta snýst um að vera nýpissaður og með vatnsheldan maskara.“ /FE
Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af því sem gerist á fjölum Bifrastar en vídeóið var tekið á æfingu í gær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.