Athugið ég er í framboði
„Mér finnst rétt að skýra fjarveru mína í þætti á Stöð 2 með oddvitum lista sem bjóða fram til Alþingis 2016, í Norðvesturkjördæminu. Ástæðan er einföld - Fréttastofa Stöðvar 2 útilokaði mig frá því að taka þátt í þættinum,“ segir Sigurjón Þórðarson oddviti Dögunar í Norðvestur kjördæmi í aðsendri grein hér á Feyki.is.
Stöð 2 var fyrr í kvöld með fyrsta kosningaþátt sinn af sex þar sem oddvitar framboða sem sitja á þingi auk Viðreisnar sitja fyrir svörum og var byrjað á Norðvesturkjördæmi. Þeir flokkar sem mælast með eins til þriggja prósenta fylgi fá kynningu í sjónvarpsþáttum á Vísi og jafnvel fleiri miðlum 365. Ekki voru allir oddvitar kjördæmisins ánægðir með fyrirkomulagið og sagðist Sigurjón Þórðarson oddviti Dögunar á Fésbókarsíðu sinni ekki vita hvers vegna Stöð 2 vilji leggja bann á málflutning Dögunar í Norðvestur kjördæminu. „Ekki er ólíklegt að það sé gagnrýni Dögunar á fjármálasukkið og skattaskjólin, sem tengist óneitanlega eigendum Stöðvarinnar,“ skrifar Sigurjón.
Feykir hafði samband við Sigurjón sem svaraði með aðsendri grein sem hægt er að nálgast HÉR. Þar segir hann Dögun berjast fyrir almannahagsmunum og hafi mátt sæta þöggun á Stöð 2 á meðan nýtt framboð Viðreisnar, með áberandi andlitum, auðmanna, talsmanna kvótagreifa og álvera auk kúlulánaþega hafi verið eins og gráir kettir í þáttum fjölmiðlasamsteypunnar.
Kosningaþátt Stöðvar 2 má nálgast HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.