Aþena nældi í sigur þrátt fyrir magnaða endurkomu Stólastúlkna

Það verður stemmari í Síkinu á þriðjudaginn í fjórða leik Tindastóls og Aþenu. Ifu hefur verið öflug í síðustu tveimur leikjum eftir að hafa verið meidd í fyrsta leik einvígsins. Hér fer hún grimm á körfu gestanna í Síkinu í leik 2. MYND: SIGURÐUR INGI
Það verður stemmari í Síkinu á þriðjudaginn í fjórða leik Tindastóls og Aþenu. Ifu hefur verið öflug í síðustu tveimur leikjum eftir að hafa verið meidd í fyrsta leik einvígsins. Hér fer hún grimm á körfu gestanna í Síkinu í leik 2. MYND: SIGURÐUR INGI

„Við erum staðráðnar í að svara fyrir okkur á þriðjudaginn og ég skora á alla Tindastólsmenn að mæta í Síkið og fylkja sér að baki okkar og aðstoða okkur við að vinna þann leik svo við getum farið í hreinan úrslitaleik eftir það,“ sagði Helgi þjálfari Margeirs eftir grátlega naumt tap gegn liði Aþenu í Breiðholtinu í gærkvöldi. Eftir magnaða endurkomu Stólastúlkna þar sem þær unnu upp níu stiga mun á 85 sekúndum undir lok leiksins þá var það Sianni Martin sem gerði sigurkörfu Aþenu með erfiðu skoti sem hún setti í. Lokatölur 80-78.

Fyrsti leikhluti var hnífjafn og liðin skiptust á um að hafa forystuna en staðan að honum loknum var 14-14. Gestirnir höfðu síðan frumkvæðið framan af öðrum leikhluta, leiddu 25-30 þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks en heimastúlkur voru grimmari fram að hléi og náðu 17-9 kafla. Þær voru því þremur stigum yfir í hálfleik, 42-39.

Stólastúlkur voru snöggar að jafna í byrjun síðari hálfleiks en síðan kom sterkur kafli hjá Aþenu og þær náðu níu stiga forystu þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Staðan 53-44. Körfur frá Birnu, Emese og Ifu minnkuðu muninn snöggt í tvö stig en Aþena kláraði leikhlutann með sjö stigum og voru heimastúlkur því með góða níu stiga forystu fyrir lokakaflann. Staðan 60-51. Áfram var barist í fjórða leikhluta en munurinn hélst 8 til 12 stig allt þar til innan við tvær mínútur voru eftir af leiknum og staðan þá 78-69. Stólastúlkur gefast aldrei upp og á rúmlega mínútu tókst þeim að jafna leikinn með körfum frá Klöru (3), Andriönu (4) og Ifu (2) sem jafnaði leikinn. Það var hins vegar Sianni sem átti lokaorðið og og lið Tindastóls fékk aðeins eina sekúndu til að bregðast við að loknu leikhléi og það dugði eðlilega ekki til að ná góðu skoti.

Ofboðslega stoltur

Ifu var stigahæst í liði Tindastóls með 25 stig og hún tók sex fráköst. Andriana gerði 23 stig og var með flotta 76% skotnýtingu og hún hirti fimm fráköst og átti fimm stoðsendingar. Emese gerði 14 stig og hirti 15 fráköst og þá setti Klara Sólveig niður tvo þrista og endaði með sex stig. Í liði Aþenu var Sianni Martin stigahæst með 26 stig og Dzana Crnac var með 19.

„Þetta var hörkuleikur. Við vorum megnið af leiknum með góða stjórn á honum og við vorum að halda þeim frá körfunni mikið til í leiknum,“ sagði Helgi en benti á að 3ja stiga nýting Aþenu hefði verið um 40% og það hefði verið dýrkeypt. Heimastúlkur hefðu haldið sér inni í leiknum þar sem Dzana gerði fimm 3ja stiga körfur í fyrri hálfleik. „En stelpurnar gáfu allt í þetta og ég er ofboðslega stoltur af þeim og ef ekki hefði verið fyrir stórkostlegt einstaklingsframtak hjá Kana Aþenu í lokaskotinu þá hefðum við verið að fara í framlengingu með skriðþungann okkar meginn,“ sagði Helgi.

Staðan því 2-1 fyrir Aþenu en næsti leikur verður í Síkinu á þriðjudaginn. Það er ekki margt sem skilur á milli þessara liða og stuðningur í Síkinu gæti því skipt sköpum eins og svo oft áður. Áfram Tindastóll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir