Allt er nú til - frumflutningur á Íslandi hjá Höfðaskóla á Skagaströnd
Nemendur á unglingastigi í Höfðaskóla á Skagaströnd vinna nú að uppsetningu á söngleiknum Allt er nú til eftir Crouse & Weidman (seinni útgáfa). Tónlist er eftir Cole Porter.
Það er Ástrós Elísdóttir sem leikstýrir hópnum. Hún er að vísu ekki bara leikstjórinn að þessu sinni, heldur líka þýðandi verksins sem og söngtexta. Allt er nú til (á fummálinu Anything goes) hefur aldrei verið sýnt áður á Íslandi og því er hér ekki bara frumsýning á ferðinni, heldur frumflutningur á þessu leikriti hér á landi.
Söngleikurinn gerist um borð í skemmtiferðaskipi á fjórða áratug síðustu aldar og fjallar um ástir og örlög farþeganna. Kabarettstjarnan Nína Sveins gerir hosur sínar grænar fyrir hinum unga Bjössa Kristjáns, en hann hugsar ekki um aðra en Höllu Hjaltalín. Hann laumast um borð í farþegaskipið S.S. American til að reyna að koma í veg fyrir að Halla giftist lávarðinum Blængi Blandon, en þar sem Bjössi er með falsað vegabréf og þar að auki að skrópa í vinnunni mega hvorki yfirmaður hans né kafteinninn komast að því að hann sé á skipinu. Þar hittir hann fyrir ýmsa kynlega kvisti: aðalsfólk, mafíósa, sjóliða og fjárhættuspilara svo eitthvað sé nefnt. Á Facebooksíðu hópsins segir að sýningin sé sannkölluð skemmtun fyrir alla fjölskylduna, stútfull af söng og dansi.
Unglingastig Höfðaskóla hefur oft sett upp leiksýningar á undanförnum árum, annað hvort með Þjóðleik eða leikrit sem kennari í leiklist hefur valið hverju sinni. Leiklist hefur verið valgrein hjá unglingastigi skólans flest undanfarin ár og hefur þessi valgrein verið ein af þeim vinsælustu. Að þessu sinni taka 24 af 32 nemendum unglingastigs þátt í uppfærslunni.
Leikmyndin er unnin af þremur nemendum úr hópnum sem notuðu flesta dagana í páskafríinu til þess að búa hana til með mikilli aðstoð frá Trésmíðaverkstæði Helga Gunnarssonar á Skagaströnd. Á síðstu dögum páskafrísins hjálpuðu svo fleiri nemendur til við að mála sviðsmyndina.
Söngleikurinn verður frumsýndur í Fellsborg á föstudagskvöldið, 5. maí kl. 20:00. Á laugardag verða svo tvær sýningar, kl. 14:00 og kl. 17:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.