Ætla að laga vörumerkið „Knattspyrnudeild Tindastóls“
Knattspyrnudeild Tindastóls vinnur nú að því að breyta allri umgjörð yngriflokkastarfs félagsins og hafa þrír þjálfarar verið ráðnir í fullt starf til að sjá um verkefnið. Markmið deildarinnar er að bæta allt barna- og unglingastarf félagsins félaginu til heilla. Bergmann Guðmundsson, formaður deildarinnar, segir að klúbburinn verði að vera sýnilegri og gera þurfi vörumerkið „fótbolti á Króknum“ betra en það hefur verið í augum fólks hingað til.
„Við erum að fara að breyta um kúrs varðandi yngri flokkana hjá okkur. Að mínu mati hefur ekki verið nægilega vel utan um þetta haldið. Það hafa verið mjög tíð þjálfaraskipti, við höfum verið að nota þetta sem uppfyllingarefni fyrir leikmenn yfir sumarið, jafnvel án þjálfaragráðu og þetta hefur, finnst mér, bitnað á börnunum okkar,“ útskýrir Bergmann og heldur áfram. „Við höfum þurft að horfa upp á fækkun iðkenda, ekki af því að fótboltinn sé orðinn eitthvað leiðinlegri, heldur að við erum ekki að bjóða upp á nógu góða vöru. Stjórnin ákvað að ráðast í það verkefni að taka inn flotta drengi sem munu geta sinnt fótbolta sem aðalstarfi og þar með börnunum okkar betur.“
Besta liðið á landinu
Í íþróttum er oft mikil samkeppni þar sem hver og einn reynir að vera betri en næsti maður og gengur misvel. En Jón bendir á áhugaverðan punkt hvernig hver einstaklingur sé mikilvægur.
„Það er gott að vera meðvitaður um það að ég gæti verið að þjálfa einstakling í fimmta flokki sem hefur brennandi áhuga en kannski ekki með mikla hæfileika. Kannski er ég þar að þjálfa næsta formann félagsins. Hann væri kannski ekki að spila fyrir félagið í meistaraflokki en maður er kannski að búa til miklu meira en bara fótboltamann.“
Bergmann trúir því að þetta verkefni sem nú er farið af stað eigi eftir að virka enda ber hann fyllsta traust til þeirra þriggja sem verða höfuð þjálfunarinnar. „Við erum að fara að bjóða upp á starf sem mun vonandi verða það besta á landinu,“ segir hann og vonandi gengur það eftir.
Í Feykir vikunnar er opnuviðtal við Bergmann og þjálfarana þrjá: Jón Stefánsson, Óskar Smára Haraldsson og Bjarna Smára Gíslason það sem sagt er nánar frá þessu metnaðarfulla verkefni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.