Á þessum tímapunkti langaði mig að hlaupa út

Hver er maðurinn? Ég heiti Ingibjörg Arnheiður Halldórsdóttir, kölluð Inga Heiða.

Hverra manna ertu? Foreldrar mínir eru Halldór Þorleifur Ólafsson (Leifur) frá Miklabæ í Óslandshlíð og Guðrún Jónsdóttir frá Garðsvík á Svalbarðsströnd.

Árgangur? 1975

Hvar elur þú manninn í dag? Í Reykjavík.

Fjölskylduhagir? Ég er einhleyp en reikna fastlega með að það muni breytast eftir viðtal í svona virtum og vinsælum miðli.

Afkomendur? Núll

Helstu áhugamál? Ég er búin að hafa ferðabakteríu í mörg ár, ákvað svo að gera eitthvað róttækt, sagði upp vinnu og daglegu lífi á klakanum og fór í 5 mánaða heimsreisu fyrir 2 árum.  Það æsti bara upp ferðabakteríuna!  Ferðalög eru sem sagt mitt aðal áhugamál, einnig hef ég gaman að tónlist, fara á tónleika, leikhús, bíó, lesa bækur og vera innan um fólk.  Maður er manns gaman!

Við hvað starfar þú? Ég starfa hjá Verkfræðistofunni Verkís, þar er ég aðstoðarmaður á Byggingasviði.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ..................... sveitin mín.

Það er gaman......................... að ferðast.

Ég man þá daga er........................ mig langaði að vera eins og Pamela í Dallas!  Af hverju er hún ekki í nýju þáttunum ??!!

Ein gömul og góð sönn saga..................  Þegar ég var í Fjölbraut man ég að gárungarnir kölluðu Byggingavörudeildina á Eyri „Vaxmyndasafnið“ og voru þar að vísa í hversu svifaseinir sumir starfsmennirnir voru.  Ég átti aldrei erindi þangað þannig að þegar pabbi hringdi og bað mig um að skjótast þangað var ég ekkert sérlega spennt því ég var í tímaþröng.  Ég storma inn og geng rakleiðis að afgreiðsluborðinu sem var á miðju gólfinu.  Við það stendur eldri maður, mjög vinalegur.

Ég: Góðan dag

Hann: Góðan dag

Ég: Ég er hér að sækja striga sem búið var að panta.

Hann: (Þögn)

Ég: Já, það átti að vera búið að klippa hann og hann er víst löngu tilbúinn.

Hann: Já, ég skil.

Ég: hmmm ... (óþolinmóð) (þögn)

Hann: (þögn)

Ég: Pabbi var sko búinn að hringja og panta hann.

Hann:  Já ....( þögn)  Er þetta fyrir hest eða heysátu?

Ég:  Uuuuu, ég veit nú ekki hvað hann ætlar sér með strigann en ég býst við að hann ætli að nota hann á heysátu.  Það á sko að vera búið að mæla strigann.

Hann: Já, hann er örugglega tilbúinn.  (þögn)

 

Þarna er ég orðin verulega pirruð og langar mest að segja við þennan indæla mann að drattast þá til að ná í strigann, það er greinilega rétt með Vaxmyndasafns – viðurnefnið.  Akkúrat þegar ég er að fara að opna munninn sé ég hvar maður í bláum slopp kemur askvaðandi til eldri mannsins og segir „ég fann skrúfurnar fyrir þig“  Ég lít í kringum mig og sé nokkra menn í bláum sloppum (eldri maðurinn var í köflóttri skyrtu)  Í fyrsta skipti lít ég líka niður fyrir mig og þá átta ég mig á að ég er vitlausu megin við afgreiðsluborðið og að ég hafi verið að áreita viðskiptavin!  Á þessum tímapunkti langaði mig að hlaupa út en vissi að það yrði nú ekki vinsælt að koma tómhent heim.  Til að toppa þetta vandræðalega atvik þá var samtal mitt við starfsmanninn í bláa sloppnum eitthvað á þessa leið:

Hann:  Get ég aðstoðað?

Ég: já, ég er að ná í striga sem pabbi hafði pantað í gegnum síma

Hann: Hvað heitir pabbi þinn?

Ég:  Halldór eða það gæti líka verið Leifur.

Hann:  Horfir undrandi á mig!!!!

Ég: Já, sko hann heitir Halldór Þorleifur og er yfirleitt kallaður Leifur, ég veit aldrei hvaða nafn hann notar hverju sinni.

Hann: Ok, ég hélt í smá stund að þú vissir ekki alveg hvað pabbi þinn heitir.

Ég var því virkilega glöð að fá loksins þennan blessaða striga sem var nánast búinn að leggja mannorð mitt í rúst!  Í mörg ár forðaðist ég að fara á Eyrina!  Einhverra hluta vegna hefur minnið mitt strokað út andlitið á vinalega manninum í köflóttu skyrtunni og enn þann dag í dag hef ég ekki hugmynd um hver þetta var.  Ef hann er að lesa þetta, þá vil ég nota tækifærið og segja Fyrirgefðu og já, striginn var fyrir heysátu.

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Ætlarðu í göngur í haust?

Svar............ Ég fer í göngur ef þú verður innan seilingar til að bjarga mér ef ég lendi í háska, Kjartan Hallur.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn............. Gunnar Freyr Steinsson

Spurningin er.................. Hvernig tilfinning var að skilja Óla Björn og Róbert eftir hjá öllum stelpunum í bekknum okkar??

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir