30 ný störf gætu skapast á Blönduósi
Á næstu þremur árum gætu skapast 30 ný störf á Blönduósi þegar gagnaver Borealis Data Center taka þar til starfa. „Þumalputtareglan er að fyrir hvert megavatt orku verði til eitt starf í fyrirtækinu sjálfu og hálft annað afleitt starf,“ segir Arnar Þór Sævarsson sveitarstjóri í samtali við Morgunblaðið á miðvikudaginn en reiknað er með að gagnaverin þurfi á 15 megavöttum að halda.
Borealias Data Center rekur nú þegar gagnaver í Reykjanesbæ en hefur jafnframt verið að svipast um eftir hentugri staðsetningu fyrir slík ver þar sem nægt landrými er og gott aðgengi að raforku líkt og er á Blönduósi. Í blaðinu kemur einnig fram að gagnaver Borealis muni einbeita sér að bitcoin-námuvinnslu. Arnar Þór gerir ráð fyrir að á næstu árum muni fleiri gagnaver bætast við á Blönduósi með fjölbreyttari starfsemi.
Á sveitarstjórnarfundi Blönduósbæjar á þriðjudag var lögð fram bókun minnihluta sveitarstjórnar þar sem segir: „Undirrituð hvetja meirihluta Sveitarstjórnar Blönduóss til að gæta vel að hagsmunum Blönduósbæjar í því mikilvæga verkefni sem gagnaversverkefnið er. Í því sambandi viljum við árétta að gagnaver er hagsmunamál þjóðfélagsins í heild og því ættu aðrar stofnanir og fyrirtæki samfélagsins að koma frekar að þessu máli.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.