Jóhannes vill skipta um nafn á Hegranesi
Jóhannes Ólsen húsvörður og harmonikuleikari er áhugamaður um örnefni. Á dögunum datt honum í hug að sækjast eftir því að fá ákveðnu örnefni í Skagafirði breytt og hyggst hann leggja inn umsókn til Örnefnanefndar Norðurlands vestra innan skamms. Dreifarinn hitti Jóhannes og spurði hann út í málið.
Hvað er í gangi Jóhannes, þú vilt breyta örnefni? –Já, ég sakna þess sem sérstakur áhugamaður um örnefni að hér á þessu svæði eru fá örnefni með mínu... já með mínu nafni svo ég segi það nú bara hreint út.
Og hvaða örnefni er þetta sem þú vilt breyta? –Mér sýnist hagstæðast og að það valdi minnstri röskun að láta breyta nafninu Hegranes í Jóhannes. Ef þetta gengur í gegn, sem ég geri mér nokkrar vonir um, mun ég að sjálfsögðu krefjast til að mynda endurútgáfu á fimmta bindi Byggðasögu Skagafjarðar þar sem Hegranesi verður án undantekninga breytt í Jóhannes.
Hvað hefði þetta í för með sér? –Nú, bæjarnöfn í væntanlegu Jóhannesi yrðu öll kennd við mig eins og til dæmis Helluland í Jóhannesi, Hamar í Jóhannesi og ekki hvað síst er ég spenntur fyrir því að hér eftir yrði þá talað um Jóhannesþing í stað Hegranesþing. Svo að sjálfsögðu mundi ég gera tilkall til þess að verða þegar í stað skipaður Jóhanessgoði.
Er þetta ekki bara eitthvað grín hjá þér Jóhannes, þér getur ekki verið alvara? –Að sjálfsögðu er mér fúlasta alvara væni minn. Ég sé ekki betur en við Jóhannesar þessa lands höfum lengi átt undir högg að sækja á meðan Ingólfum, Sæmundum og jafnvel Öglum hefur verið gert hátt undir höfði með alls kyns örnefnasúpum. Við þetta verður ekki lengur unað.
En segðu mér, ef menn vilja reisa skóg eða sumarbústað í Jóhannesi eiga þeir þá að hafa samband við þig? –Óttalegur vitleysingur geturðu verið. Að sjálfsögðu ekki. Skipulagsnefnd Skagafjarðar hefur eftir sem áður með slíkt að sýsla. Þetta mál snýst um örnefnaréttlæti, ekki völd.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.