„Hver vill kaupa óvissu?“ spyr Gunnar Ormur
Gunnar Ormur Bíldal (57) setti sig í samband við Dreifarann á dögunum og sagðist yfir sig hneykslaður. Gormur, eins og hann er oftast kallaður, hefur fengist við eitt og annað í gegnum tíðina. „En síðustu misserin hef ég verið í ferðaþjónustu, það er svo helvíti mikill vaxtarbroddur í því dæmi öllu saman.“
Hvernig gengur hjá þér í ferðaþjónustunni? -Ég skal nú segja þér það vinur að ég er ekki með nein próf upp á vasann í ferðaþjónustunni en þetta seiglast einhvern veginn hjá manni. Það er svo sem ekki mikið upp úr þessu að hafa ef maður er heiðarlegur og borgar af þessu eins og til er ætlast, þú skilur, hahahahaha.
Hvernig ferðaþjónustu ertu með? -Ja, ég kom mér upp svona útsýnispalli hér inni í dal og geri svona mest út á fuglaskoðun yfir daginn en norðurljósasýningar þegar skyggja tekur. Það þarf ekki að borga listamanninum krónu sem sér um þær sýningar, hahahahaha. Það er nú meiri munurinn.
Einmitt. En hvað segirðu, þú ert hneykslaður á samkeppnisaðilum þínum? -Já, heldur betur lagsmaður. Og mikið af þessu liði er alveg sprenglært í allskonar ferðaþjónustufræðum, með próf í já, kannski, jaa... ferðaþjónustu og jafnvel viðburðahaldi alls konar, ha? Heldurðu að það sé nú!? En svo er þetta lið bara að bjóða upp á einhverjar óvissuferðir, ha!? Hahahaha. Hvers lags eiginlega er þetta!?
En eru þetta ekki vinsælar ferðir? -Nei andskotinn, hver vill kaupa óvissu? Það sem ég er að segja er að þetta er sprenglært fólk kannski og það getur ekki skipulagt ferð, það er ekkert búið að pæla í hvað á að gera. Hahahahaha. Það er bara óvissa... skilurðu ekki hvað ég er að fara!?
Nei Gormur, þú ert örugglega að misskilja þetta eitthvað. Þetta eru alla jafna mjög vel skipulagðar ferðir, það eru bara þeir sem taka þátt í óvissuferðinni sem vita ekki hvað gerist í ferðinni því það á að koma þeim á óvart. -Jájá og hvernig eiga Björgunarsveitirnar já og Landsbjörg að vita hvar þetta lið er statt ef það týnist einhverstaðar á fjöllum í óvissufe... ha? En, en já, þú meinar að þetta sé skipulagt fyrir fram?
Ég er að segja það já. -Já, jújú það er náttúrulega út af fyrir sig ágætt sko, en en ég hef séð þetta lið vinur og ég treysti því sko ekki fyrir horn. Það er bara þannig og þetta er bara hneyksli sko hvernig þetta fólk hagar sér. Sprenglært lið sem hefur aldrei migið í saltan sjó.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.