Heila málið er mál málanna
Málfríður Bolladóttir hefur unnið sér það til frægðar að hafa drukkið kaffi úr sama máli í 30 ár á sínum vinnustað. Lesandi Dreifarans hafði samand og vakti athygli á þessum sérkennilega málshætti Málfríðar og fór Dreifarinn því á stúfanna og hafði uppá Málfríði og spurði hana nánar út í málið.
Jæja Málfríður, nú er þetta mál orðið ansi útjaskað, hefur ekki hvarflað að þér að skipta út gamla málinu fyrir nýtt? -Nei, það hefur mér aldrei dottið í hug. Þetta er jú mitt atvinnumál. Ég tel að málnotkun á vinnustöðum á Íslandi sé alltof handahófskennd, fólk tekur bara fram nýtt og nýtt mál.
En hvernig er það, hefur fólk aldrei ruglast og tekið málið þitt í misgripum? -Jú, það kom einu sinni fyrir að ég hafði gleymt að láta málið á minn málstað og málið var tekið í misgripum. Ég ætlaði að sækja málið einn morguninn og viti menn, ekkert mál. Um leið og ég hafði haft upp á viðkomandi málaþjófi gerði ég honum grein fyrir því að þetta væri jú mitt einkamál. Þú hefðir átt að sjá svipinn á honum, hann átti sér engar málsbætur hahaha.
Hver er galdurinn á bak við þessa löngu endingu málsins, hefur aldrei legið við slysi? -Jú heldur betur. Þannig er nú mál með vexti að eitt sinn lenti ég í því að samtstarfsfélagi minn ætlaði að gera grín í mér. Kauði hélt á málinu mínu og lét svo málið falla beint í gólfið, ég gjörsamlega missti málið... eða réttara sagt þá missti hann málið en ég kom ekki upp orði, en hvað um það, ótrúlegt en satt þá þoldi málið fallið. Að vísu varð eftir slæmt málfar í parketinu en ég hef alltaf haldið því fram að málefnin sem notuð eru segji mikið til um styrk málsins og málvöndun er afar mikilvæg.
Er svo eitthvað á döfinni Málfríður? -Jájá, við stelpurnar hérna á skrifstofunni ætlum að taka þátt í tónleikunum í sumar í Bifröst, þarna Villtir svanir og tófa minnir mig að þeir séu kallaðir. Við erum byrjaðar að æfa upp prógramm.
Og er hljómsveitin komin með nafn? Að sjálfsögðu góði minn, hún er kölluð Málbandið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.