Mikið um að vera á Skíðasvæði Tindastóls á næstunni
Það sem af er vetri hefur tíðarfarið verið mjög gott til skíðaiðkunar í Tindastóli. Viggó Jónsson staðarhaldari segir að veðurfarslega hafi veturinn verið með eindæmum hagfelldur - ekki mikið um umhleypingar, nóg af snjó í fjallinu og mjög gott færi.
Þó nokkuð af gestum hefur verið að renna sér í fjallinu, meira af fólki utan svæðisins en hann segist myndi vilja sá fleiri Skagfirðinga og Húnvetninga í fjallinu. „Það hafa verið talsvert af aðkomufólki, og það er jákvætt, en við auglýsum eftir bæði Skagfirðingum og Húnvetningum, þeir mættu vera duglegri að koma á skíði,“ segir hann. „Töfrateppið okkar hefur slegið í gegn og eru margir krakkar eru að byrja að nota það. Það er virkilega gaman að taka slíkt tæki í notkun þegar móttökurnar eru svona góðar, við erum hæstánægð með það.“
Það er mikið um að vera í fjallinu á næstunni. Vetrarhátíð fer fram dagana 26.-28. febrúar af því tilefni er búið að setja saman skemmtilega dagskrá með fjölbreyttri skemmtun fyrir alla fjölskylduna. „Vetrarhátíðin snýst um að hafa gaman saman,“ segir Viggó.
Á föstudeginum opnar svæðið kl. 14:00 og er opið til kl. 21:00. Kveikt verður í varðeldi og tónlistin mun óma í fjallinu. Opnunartími laugardagsins er frá kl. 11:00-16:00 og það verða þrautir og stuð allan tímann. „Við skiptum krökkunum og fólkinu upp í hópa og förum í leiki í fjallinu, það munu hópstjórar stjórna þeim. Svo höfum við fengið skátana í lið með okkur og björgunarsveitina,“ segir Viggó.
Þá verður bátur frá Viking Rafting í fjallinu og Crazy Roller á sínum stað. „Svo ætlum við að loka deginum með því að fara upp á topp. Ég verð búinn að troða leið þar sem þú getur skíðað alveg niður á veg, sem við köllum Skíðað út í buskann.“ Af tilefni hátíðarhaldanna er lengri opnunartími hjá Sundlaug Sauðárkróks á laugardeginum, til kl. 18.
Á sunnudeginum er opið frá kl. 11:00-16:00, með tilheyrandi tónlist en þá verður einnig Brettabrun kl. 13:00. „Það verður alls kyns ævintýri. Ég vona bara að fólk hafi gaman að þessu,“ segir Viggó.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.