Vilja sjóð sem styrkir uppbyggingu íþróttamannvirkja á landsbyggðinni
Á 339. fundi Sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem haldinn var miðvikudaginn 12. maí 2021 lagði Magnús Vignir Eðvaldsson sveitarstjórnarfulltrúi N-listans fram eftirfarandi tillögu að bókun;
„Öll börn á Íslandi eiga rétt á að stunda íþróttir við hæfi og uppbygging á viðunandi aðstöðu til íþróttaiðkunar eykur til muna lífsgæði þeirra og styrkir búsetu á landsbyggðinni. Það er ljóst að bilið á milli stærri þéttbýliskjarna og landsbyggðarinnar hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og minni sveitarfélög hafa hreinlega setið eftir þegar kemur að uppbyggingu á íþróttaaðstöðu. Því miður hefur það sýnt sig að minni sveitarfélög hafa ekki burði til að ráðast ein og sér í stórar framkvæmdir við uppbyggingu íþróttamannvirkja. Sveitarstjórn Húnaþings vestra telur mikilvægt að ríkið komi til móts við minni sveitarfélög þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja á landsbyggðinni. Með því væri verið að jafna búsetuskilyrði á landinu og styrkja byggðir sem margar hverjar eiga undir högg að sækja. Sveitarstjórn Húnaþings vestra skorar á stjórnvöld að komið verði á fót sjóði sem styrkir minni sveitarfélög á landsbyggðinni til uppbyggingar íþróttamannvirkja.“
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. Sveitarstjóra var falið að koma bókuninni á framfæri við viðeigandi ráðuneyti og þingmenn kjördæmisins.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.