Sjálfstæðisfólk og óháðir í Húnaþingi vestra bjóða fram undir listabókstafnum D

Á fundi Fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Húnaþingi vestra um síðustu helgi var ákveðið að við sveitarstjórnarkosningarnar í vor muni sjálfstæðisfólk og óháðir bjóða fram undir listabókstafnum D. Kemur þetta fram í Facebook-færslu Júlíusar Guðna Antonssonar, formanns stjórnar N-lista og varaformanns Sjálfstæðisfélags V-Hún.

„Á sínum tíma var ákveðið að bjóða fram undir merkjum Nýs afls í Húnaþingi vestra þar sem fulltrúar úr minnihluta sveitarstjórnar (fyrir utan framsókn) gengu til liðs við meirihluta sjálfstæðismanna og óháðra. Til þessa samstarfs var stofnað með það að markmiði að ná meirihluta með fólki sem hafði reynslu af því að starfa saman og hafði breiða skírskotun á hinu pólitíska sviði.

Þetta tókst og undir meirihlutastjórn N-lista var sveitarfélaginu stýrt þannig að svigrúm skapaðist til stærri og öflugri verkefna. Með hliðsjón af velheppnuðu samstarfi var ákveðið fyrir síðustu kosningar að halda samstarfi N-lista áfram. Í kosningunum tókst ekki að viðhalda meirihlutanum og að því marki má því segja að kjósendur hafi hafnað þessu samstarfi og aðferðafræðinni þar að baki,“ skrifar Júlíus.

Fulltrúaráð sjálfstæðismanna í Húnaþingi vestra fundaði um síðustu helgi þar sem ákveðið var að sjálfstæðisfólk og óháðir myndu bjóða fram undir listabókstafnum D við sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

„Þessi ákvörðun er tekin með hliðsjón af ofangreindu þrátt fyrir mjög gott samstarf sitjandi fulltrúa N-listans og er ákvörðunin ekki tekin út frá einstökum persónum heldur eingöngu aðferðarfræðilegum ástæðum. Nú er það svo með þessa ákvörðun eins og svo margar aðrar að sitt sýnist hverjum en niðurstaðan er þessi og samkvæmt henni verður unnið. Þökkum við sjálfstæðismenn í Húnaþingi vestra fyrir öflugt, ánægjulegt og farsælt samstarf á undangengnum árum og erum þess fullvissir að samstarfið geti haldið áfram þó á öðrum forsendum sé. Jafnframt hvetjum við sjálfstæðisfólk í héraðinu sem og óháða að koma til liðs við okkur hvort heldur sem er á listann eða í það málefnastarf sem framundan er. En fyrst og fremst þurfum við á kjósendum að halda þannig að okkur auðnist öllum að nýta tækifærin. X-D,“ segir Júlíus Guðni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir