Píratinn, Jón Þór Ólafsson, kærir oddvita yfirkjörstjórnar Norðvestur fyrir mögulegt kosningasvindl
Fyrrum þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, hefur kært framkvæmd atkvæðatalningar í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum, sem fram fóru í haust, til lögreglu. Telur hann mögulegt að lögbrot hafi verið framið af hálfu yfirkjörstjórnar og byggir kæran á lýsingu málsatvika í greinargerð undirbúningsnefndar Alþingis fyrir rannsókn kjörbréfa (URK) og opinberum upplýsingum sem lögreglan sendi nefndinni.
Á Vísi.is í dag greinir Jón Þór frá kæru sinni í grein sem ber yfirskriftina Oddviti yfirkjörstjórnar norðvestur kærður til lögreglu fyrir mögulegt kosningasvindl. Jón Þór segir að gögn URK Alþingis sýni, að í fyrsta lagi hafi oddviti yfirkjörstjórnar norðvesturkjördæmis (YNV) skapaði sér með lögbroti tækifæri til að svindla á atkvæðunum í Alþingiskosningum. Í öðru lagi að oddvitinn hafi hraðað svo endurtalningu atkvæðanna þannig að lögbundið eftirlit var ómögulegt og í þriðja lagi að oddvitinn hafi farið rangt með í gerðabók, í fjölmiðlum, fyrir þingnefnd og lögreglu þau málsatvik sem benda á mögulega sekt hans.
„Kæran beinir því til lögreglu að rannsaka sérstaklega hvort gögn málsins sýni að nægar líkur séu á því að oddviti YNV hafi brotið 128 gr. laga um kosningar til Alþingis með því að hafa vísvitandi rangfært atkvæðagreiðslu. Séu fyrir hendi næg sönnunargögn sé rétt samkvæmt lögum að gefa út ákæru þess efnis, en slíkt brot varðar fangelsi allt að fjórum árum. Kæran beinir því jafnframt til lögreglu að rannsaka önnur möguleg lögbrot við framkvæmd kosninganna er varða sektum,“ segir í grein Jóns Þórs.
Hann bendir á að oddviti YNV hafi verið einn með óinnsigluðum atkvæðum í rúman hálftíma, en ein mínúta nægi til að rangfæra atkvæðagreiðsluna með strokleðri og blýanti. Segir hann að gögn Alþingis sýni að oddviti YNV gerði kosningasvindl mögulegt, komið í veg fyrir lögbundið eftirlit með mögulegu kosningasvindli og að hann hafi farið rangt með í gerðabók, í fjölmiðlum, fyrir þingnefnd og lögreglu þau málsatvik sem benda á mögulegt kosningasvindl og eru málsatvik rakin í greininni.
Þess er að lokum krafist í kærunni að málið verði tekið til rannsóknar lögreglu án tafar enda málið þess eðlis. Nauðsynlegt er að lögregla framfylgi sínum skyldum að fullu eins og kveðið er á um þær í lögum um kosningar þegar þeir sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna fara mögulega á svig við lögin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.