Pílufélag Hvammstanga - Áskorandapenni Patrekur Óli Gústafsson – Formaður Pílufélags Hvammstanga
Það hafði verið í umræðunni í þó nokkurn tíma hjá okkur félögunum að það væri gaman að stofna pílufélag á Hvammstanga. Áhuginn var til staðar en það eina sem þurfti var spark í rassinn til að hefjast handa.
Fyrir mánuði síðan hófust framkvæmdir og styrktarsöfnun. Peningalega séð fórum við hægt af stað en um leið og við fengum úthlutað húsnæði fór allt á fullt og einungis þremur vikum seinna vorum við búnir að opna. Við eigum þó enn eftir að klára ýmislegt sem farið verður í á næstu vikum.
Á þriðja tug félagsmanna sækja í aðstöðuna og alltaf eru nýir að bætast við, karlar jafnt sem konur og tökum við vel á móti öllum. Hægt er að finna allar upplýsingar á Facebook síðu okkar. Í aðstöðu okkar má finna fjórar vandsmíðaðar pílubrautir.
Pílukast er íþrótt sem hefur farið vaxandi á Íslandi síðustu ár og er íþróttin sú þriðja vinsælasta í Bretlandi um þessar mundir. Á Íslandi eru nú um tólf virk pílufélög og fer þeim fjölgandi. Keppt er mikið í íþróttinni á landinu í öllum landshlutum. Íslendingar eru til að mynda með landslið í íþróttinni.
Opið er hjá okkur tvisvar í viku, þriðjudögum og fimmtudögum frá 19:30 - 22:00 ásamt auka opnunartímum af og til. Stefnan er að vera með námskeið í íþróttinni seinna í vetur þar sem Íslandsmeistari kvenna kemur og heldur utan um það.
Fyrirtæki og hópar geta haft samband við okkur og leigt aðstöðu okkar sér til skemmtunar, endilega hafi samband við okkur á Facebook. Vonandi sjáum við sem flesta í vetur.
Ég skora á Gunnar Pál Helgason að koma með pistil.
Áður birst í 42. tbl. Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.