Öflug starfsemi Leikflokks Húnaþings vestra :: Frumsýning á Pétri pan framundan og frumsamið leikrit í vor

Æfingar ganga vel leikritinu á Pétri pan hjá Leikflokki Húnaþings vestra en frumsýning er áætluð þann 11. desember. Aðsendar myndir.
Æfingar ganga vel leikritinu á Pétri pan hjá Leikflokki Húnaþings vestra en frumsýning er áætluð þann 11. desember. Aðsendar myndir.

Leikhópur Húnaþings vestra stefnir á að frumsýna leikritið um Pétur pan þann 11. desember á Hvammstanga. Samlestur hófst upp úr miðjum október og byrjuðu æfingar á fullum krafti 2. nóvember, sem ganga mjög vel að sögn Arnars Hrólfssonar, formanns Leikflokksins.

„Pétur Pan er saga sem allir þekkja, um drenginn sem vill ekki verða stór. Við vinnum með handrit sem Karl Ágúst Úlfsson þýddi og Greta Clough hefur gert leikgerð upp úr en hún er einnig leikstjóri verksins. Það eru 19 leikara í þessari uppfærslu, og þar af eru tíu krakkar. Það er auðvitað mjög gaman að sjá hvernig krakkarnir vaxa með hverju verkefni því mörg af þeim eru orðin vel sjóuð í að taka þátt í uppfærslum. Svo eru náttúrulega um fimm baksviðsmenn og án þeirra verður aldrei leiksýning,“ segir Arnar.

 Yfirleitt gengur mjög vel að manna leikrit Leikflokksins að sögn Arnars en stundum þarf þó að hnippa í einhvern sem passar sérstaklega vel í hlutverk en hefur kannski ekki boðið sig fram af fyrra bragði. „Það þarf yfirleitt ekki að leggjast fast á fólk, því leikhúsbakterían hefur skotið hér sterkum rótum og erum við komin með góðan kjarnahóp sem vill taka þátt eins mikið og þau geta.“

Leikflokkur Húnaþings vestra hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir öflugt og metnaðarfullt starf og er stefnt á spennandi verkefni í vor. „Páskaleikritið hjá okkur núna er frumsamið. Fengum við Ármann Guðmundsson til að semja það í kringum lög eftir Gunna Þórðar og nokkurra textahöfunda. Við erum mjög spennt fyrir því verki.“

Engin vandamál, bara lausnir
Arnar hefur verið virkur félagi Leikflokksins í um áratug en settist í formannsstólinn síðastliðið vor þegar fráfarandi formaður gaf ekki kost á áframhaldandi setu. „ Ég flutti aftur heim fyrir svona tíu árum síðan og byrjaði auðvitað á að ganga í leikflokkinn og svo að finna vinnu. Þegar það lá fyrir að formaðurinn vildi hætta var rætt innan stjórnarinnar hvort einhver vildi taka við. Það voru þrjú hörð nei og tvö semí-já. Þar sem enginn vildi kjósa þá var ákveðið að útkljá þetta með einföldum hætti. Við sem sögðum ekki nei fórum í skæri blað og steinn og vann ég eða tapaði eftir því hvernig á það er lítið,“ segir formaðurinn léttur í bragði.

Eins og allir sem standa fyrir viðburðum þessa óvissutíma hefur Arnar smá áhyggjur af því hvernig staðan er með Covid en ætlar sér ekki að sökkva sér í svartsýnisraus. „En það verður bara að koma í ljós. Frumsýningin verður 11. desember og það kemur í ljós hvaða reglur verða gangi þá. Því það eru engin vandamál, bara lausnir!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir