Ófærð á heiðum og óveður á Norðurlandi vestra
Enn er bálhvasst víðast hvar á Norðurlandi vestra, vindur yfirleitt þetta 15-20 m/sek og hiti um frostmark. Nú um þrjúleytið voru Holtavörðuheiði, Vatnsskarð og Öxnadalsheiði lokuð vegna veður enda suðvestan 27 metrar á þeirri síðarnefndu og ekkert ferðaveður.
Enn er í gildi appelsínugul viðvörun á Norðurlandi vestra en dregur úr veðrinu um klukkan sex og er gul viðvörun í gildi til 10-11 í kvöld en þá falla viðvaranir á svæðinu niður. Það dregur úr vindi í nótt en heldur bætir í ofankomuna og gert er ráð fyrir 8-15 m/sek á morgun (sunnudag). Frost 1 til 6 stig.
Fært er yfir Þverárfjall og fyrir Tröllaskagann en víða á þeirri leið er óveður; bálhvasst og éljagangur.
Fresta hefur þurft nokkrum boltaleikjum vegna ófærðar og vonskuveðurs en leikur Tindastóls og KR í 1. deild kvenna í körfunni, sem fram átti að fara í kvöld í Síkinu, hefur verið frestað til kl. 16 á morgun. Þá áttu fótboltastelpur Tindastóls að spila í Kjarnafæðismótinu í dag við lið Völsungs en sá leikur fer sömuleiðis fram kl. 16 á morgun í Boganum á Akureyri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.