Nemendafélag FNV með nýtt frumsamið leikrit

Hluti leikhóps FNV að lesa saman handrit að Vertu Perfekt þegar það var skrifað til enda. Pétur Guðjónsson, leikstjóri og höfundur, segir að þá hafi það verið lesið saman frá byrjun til að fá samfelluna. „Gaman að segja frá því að hópurinn, sem var búinn að lesa og æfa stóran hluta handrits, var mjög spenntur að vita hvernig verkið myndi enda. Þetta hefur maður ekki upplifað áður í æfingaferlinu.“ Aðsend mynd.
Hluti leikhóps FNV að lesa saman handrit að Vertu Perfekt þegar það var skrifað til enda. Pétur Guðjónsson, leikstjóri og höfundur, segir að þá hafi það verið lesið saman frá byrjun til að fá samfelluna. „Gaman að segja frá því að hópurinn, sem var búinn að lesa og æfa stóran hluta handrits, var mjög spenntur að vita hvernig verkið myndi enda. Þetta hefur maður ekki upplifað áður í æfingaferlinu.“ Aðsend mynd.

Vertu Perfect heitir leikritið sem Nemendafélag FNV setur á svið að þessu sinni og verður þar um heimsfrumsýningu að ræða. Höfundur er hinn geðþekki Akureyringur Pétur Guðjónsson, sem getið hefur sér góðan orðstír á Sauðárkróki fyrir leikstjórn fyrir NFNV og Leikfélag Sauðárkróks. Pétur segist fara óhefðbundna leið að þessu sinni þar sem hann hefur þegar skapað karaktera og skipað í hlutverk en ekki búinn að klára verkið, þó langt komið sé. Svo þegar handrit liggur fyrir muni það taka breytingum.

„Að vera fullkominn, eða perfect, er algeng krafa í dag. Það er mikið talað um að við sjáum lífið í gegnum filter. Þú mátt ekki koma fram eins og þú ert, það má ekki gera mistök,“ segir Pétur, aðspurður um nafnið á verkinu. Hann segist finna mikið fyrir óttanum hjá ungu fólki við að gera mistök, bregðast. „Það er gott að vilja vel og hafa metnað en við verðum að fá að gera mistök til að læra af þeim. Svo eru það fordómarnir. Við höldum að við séum orðin svo umburðarlynd en víða leynast fordómar. Þú ert öðruvísi en fjöldinn. Þá ertu nörd eða suddi og einhverjir ganga svo langt að vilja ekki vera í sama rými og „suddarnir“. Óttinn við að missa statusinn sinn er mikill ef þú stendur upp gegn þessu.“ Pétur segir að ef hann eigi að svara í styttra máli þá haldi hann að framhaldsskólanemendur standi margir hverjir frammi fyrir þessu, að verða að vera perfect.

Þú segir að leikritið fjalli um framhaldsskólalíf árið 2021. Er það eitthvað annað en Covid og grímur?
„Já, sko í þessu leikriti er Covid ekki til. Það kemur aldrei fram, aldrei minnst á það. Enda sagði Kári Stefánsson í apríl að Covid myndi enda 13. október. Og hvaða dagur er í dag? Heyrðu annars, hvað er þetta Covid?“ spyr höfundurinn og fátt er um svör hjá spyrjanda sem er forvitinn um hvernig það er að hafa leikrit í höndunum sem ekki er búið að skrifa þrátt fyrir að æfingar séu hafnar.

„Það er bara hægt að lýsa því þannig að þetta er algjörlega galið. En alls ekki lesa neikvæðni út úr þessu. Ef eitthvað er nógu mikil áskorun þá finnst mér það gaman. Það stóð til að setja upp þekkt leikrit sem búið er að skrifa. Það gekk illa að koma því öllu heim og saman, þannig að ég missti út úr mér við Nemó hvort ég ætti ekki bara að skrifa fyrir þau. Og hugsaðu þér traustið, þau sögðu bara já. Síðan lagði ég fram hugmyndina sem ég átti ofan í skúffu og þeim leist vel á. Þá varð að hugsa hratt og fara að skrifa og skrifa. Ég legg upp með ákveðinn þráð og skapa karaktera.

Svo voru prufur. Þá vissi ég að hverju ég væri að leita til að geta valið í hlutverkin. Reyndar urðu einhver hlutverk til eftir prufurnar. Því næst var að hitta hópinn, lesa aðeins í handritið sem er komið og svo vinna með karaktera.“

Eftir tveggja vikna æfingar segir Pétur voða lítið hafa verið farið í handritið heldur nánast eingöngu verið kafað ofan í persónusköpun. „Svo er skemmtilegt, að ég segi þeim á æfingum hvað ég er að hugsa með framhaldið í leikritinu. Þannig að þetta er svolítið að gerast með þeim eða í nánu samstarfi við þau. Nú er reyndar handrit skrifað til enda með um 25 persónum. Við eigum án efa eftir að breyta, strika út og bæta við.“

Í leikritinu er mikil tónlist og segir Pétur lögin vera úr ýmsum áttum. „Flest með íslenskum textum en þetta eru lög frá Pink Floyd, Katy Perry, Bruno Mars, Lily Allen, Shakira, Muse, Whithey Houston svo einhverjir séu nefndir, meira og minna þekkt popplög með íslenskum textum.

Suðupottur af hæfileikum
Pétur er að góðu kunnur á Króknum eftir uppsetningar sínar með NFNV og Leikfélagi Sauðárkróks undanfarin ár en einnig samdi hann og leikstýrði Sæluvikuleikriti LS síðasta vor, Á frívaktinni, sem naut geysimikilla vinsælda. Liggur beinast við að spyrja hvort hann sé fluttur á Krókinn.

„Nei, svo er nú ekki. Ég þarf reyndar að keyra töluvert yfir Öxnadalsheiðina þar sem ég er í störfum og verkefnum á Akureyri. Þannig að ég bý enn á Akureyri. Ég þarf að keyra á milli en gisti þó stundum.

Það er bara þannig að þegar Nemó hafði samband þá togaði strax í mig að koma. Ég einfaldlega kann ofsalega vel við mig á Króknum og þar liggja fyrir helst tvær ástæður. Annars vegar er að hér er allt í suðupotti af hæfileikum og það sést svo greinilega á nemendum FNV að hér nær leiklistin langt niður í yngstu bekki grunnskólanna. Ég stóð frammi fyrir mjög erfiðu vali þegar prufurnar voru, þau hefðu öll getað fengið hlutverk en einhvers staðar verður að skera niður. Hins vegar er bara gott fólk hérna, svo einfalt er það.“

Áætlanir ganga út á það að frumsýnt verði í Bifröst 15. janúar og segir Pétur að lögð sé gríðarlega mikil vinna og metnaður í þetta verkefni. „Ég vona að þetta verði fjörugt, dramatískt, skemmtilegt og bara nái öllum tilfinningaskalanum. Við leggjum allt í þetta svo ég vona að leikritið fái góðar móttökur.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir