Miklar rafmagnstruflanir þar sem orkumálin voru rædd

„Á myndinni má sjá hina klassísku fundamynd af veffundum en í þetta skiptið tekin í rökkri og af gsm síma í rafmagnsleysinu,“ segir í færslu á heimasíðu SSNV þaðan sem myndin er fengin.
„Á myndinni má sjá hina klassísku fundamynd af veffundum en í þetta skiptið tekin í rökkri og af gsm síma í rafmagnsleysinu,“ segir í færslu á heimasíðu SSNV þaðan sem myndin er fengin.

Þingmenn hafa þeyst um landið þvert og endilangt í kjördæmaviku sem nú er að renna sitt skeið en einnig hefur tæknin verið nýtt til fundahalda líkt og á dögunum þegar sveitarstjórnarfólk á Norðurlandi vestra og þingmenn Norðvesturkjördæmis ræddu saman á Teams. Þingmenn fengu þá að sjá með eigin augum hve rafmagnsöryggið á landsbyggðinni getur verið ótryggt.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, fékk það hlutverk að stýra umræðum og segir hún á Facebook-síðu sinni það hafa verið ansi „skondið“ þegar rafmagnið hafi farið af fimm mínútum fyrir fyrsta fund og var svo að koma á og detta út næsta klukkutímann eða svo. „Þá voru góð ráð dýr og ég skellti mér bara inn á fundinn í símanum í rökkrinu. Allt gekk þetta nú allt saman upp og fundirnir hinir fínustu,“ skrifar hún.

Á heimasíðu SSNV segir að farið hafi verið yfir helstu mál á fundinum, svo sem samgöngumál, atvinnumál, heilbrigðismál, menntamál, orkumál og margt fleira. „Þar sem orkumálin fá jafnan mikið pláss í umræðunni á fundum sem þessum var það því kaldhæðnislegt að nokkrum mínútum í fund hófust rafmagnstruflanir á Hvammstanga sem stóðu langt fram eftir fundi. Framkvæmdastjóri SSNV stýrði umræðum á fundinum og þurfti því að taka fundinn í símanum í rökkrinu í morgunsárið. Kaldhæðni gæti einhver sagt – eða áhersluauki einhver annar. Í það minnsta var engum vafa undirorpið á fundinum að úrbætur í orkumálum eru brýnt viðfangsefni í landshlutanum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir