Jólin geta verið allskonar :: Áskorandapenninn Ingimar Sigurðsson
Það eru margar hliðar á jólahátíðinni og snúa þær mismunandi að fólki eftir aðstæðum hvers og eins. Ég tel mig vera í þeim hópi sem er svo heppinn að hafa getað notið þeirra í faðmi fjölskyldu og vina. Ekki yfirdrifið jólastress en samt ákveðinn fiðringur sem fylgir undirbúningi þeirra. Hafandi tekið þátt í jólahátíðinni í rúmlega hálfa öld ætti ég að vera kominn með einhverja reynslu.
Foreldrar mínir voru með ágætis skipulag á aðfangadag þegar ég var að alast upp. Við erum fjórir bræðurnir og gat því oft verið töluvert fjör og spennustigið hátt. Við reyndum yfirleitt að setjast að borðum um sex leytið og borða hátíðamat. Stundum fannst mér pabbi fara óþarflega seint í fjárhúsin í seinni gjöfina, sem gerði það að verkum að hann var frekar seinn inn, var hræðilega lengi í sturtu og allt gekk á hraða snigilsins. Að loknu borðhaldi sáu foreldrar okkar um að ganga frá og á meðan fengum við bræður það verkefni að sækja pakka inn í herbergið þeirra og koma fyrir undir jólatrénu.
Húsið nokkuð stórt svo þetta tók töluverðan tíma. Ég reikna með að þetta hafi þau sett upp svona vegna þess að það hefði trúlega ekki þýtt að raða þeim þar fyrr vegna áhugasamra handa sem gætu fiktað og kíkt. Svo voru þetta oft það margir pakkar að erfitt var að finna pláss. Einnig gaf þetta þeim svigrúm til að anda og ganga frá meðan við bræður, í friði og ró, gerðum allt klárt fyrir kvöldið.
Sú hefð var líka hjá okkur að dansa í kringum jólatréð og syngja áður en farið var að opna pakka. Þegar eldri bræður mínir voru komnir á unglingsárin og gríðarlega þroskaðir og vitrir, en við tveir yngri vorum ennþá á spennustiginu, þá var það svo einkennilegt hvað þeir urðu ótrúlega slakir yfir pökkunum og vildu alltaf syngja eitt lag enn og labba nokkra hringi í viðbót. Þetta fannst okkur yngri bræðrum langt frá því að vera sniðugt eða skemmtilegt. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem maður áttaði sig á skemmtanagildinu í þessu fyrir þá.
Margt hefur breyst síðan þá og ég er búinn að halda jól nokkuð oft með mínum börnum. Þessi jólin verða engin börn hjá mér vegna breyttra aðstæðna. Þá fer maður bara í hring og bauð ég foreldrum mínum að vera hjá mér ásamt einum bræðra minna.
Ég reikna með að spennustigið verði í lægri kantinum. Pakkarnir komist auðveldlega fyrir undir trénu og ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að einhver sé að kíkja í þá. Hvernig sem aðstæður eru þá er markmið jólahátíðarinnar í mínum huga alltaf það sama. Að skapa þannig umgjörð að fólk geti notið þess að vera með þeim sem því þykir vænt um.
Ég skora á Dagbjörtu Diljá Einþórsdóttir á Urriðaá að skrifa pistil í Feyki.
Áður birst í 48. tbl. Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.