Fyrsta Lúsíuhátíðin í Húnaþingi vestra

Glæsilegar Lúsíur og einn stjörnustrákur á Hvammstanga. Mynd: Eva-Lena Lohi.
Glæsilegar Lúsíur og einn stjörnustrákur á Hvammstanga. Mynd: Eva-Lena Lohi.

Sú hugmynd kom upp í haust að halda, að sænskri fyrirmynd, Lúsíuhátíð á Hvammstanga en áætlunin fór á annan veg en lagt var upp með í upphafi, vegna aðstæðna sem allir þekkja. En útfærslu hátíðarinnar var breytt í samræmi við sóttvarnir og reyndist mjög vel en þetta var í fyrsta skiptið sem Lúsíuhátíð er haldinn á Hvammstanga.

„Með þessa reynslu að baki hlökkum við til að halda alvöru Lúsíuhátíð næsta ár og óskum öllum íbúum í héraði gleðilegra jóla og margra bjartra og skínandi daga á árinu sem er að koma,“ segir Kathrin Schmitt en hún sendi Feyki meðfylgjandi myndband.

Til stóð að hátíðin færi fram þann 13. desember, á degi heilagrar Lúsíu, en breyttist vegna sóttvarnaaðgerða og sameinaðist sérstökum jólatónleikum sem Karlakórinn Lóuþrælar hélt í Hvammstangakirkju.

Krakkarnir, sem brugðu sér í Lúsíugervi og stjörnustrák, voru allt frá leikskólaaldri og upp í 5. bekk og segir Kathrin að stefnt verði á að halda hátíðina að ári en þá í stærri útgáfu.

Hún segir að hin sænska Eva-Lena Lohi hafi átt hugmyndina að hátíðinni, séð um alla búninga og framkvæmd en án hennar hefði þetta ekki orðið að veruleika. Vill hún að lokum þakka öllum sem tóku þátt og hjálpuðu til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir