Framtíðin er komin - Áskorandi Þorgrímur Guðni Björnsson Hvammstanga

Takk Ármann! Takk fyrir áskorunina. Þetta verður geymt en ekki gleymt. Nú þegar styttist í komu erfingjans á Neðri-Torfustöðum þá fannst mér tilvalið að ræða við verðandi foreldrana um upptöku eftirnafnsins Ármann, það var hlustað en ég veit ekki hvort samtalið hafi skilað ætluðum árangri og hugmyndin sé gleymd.

Eitthvað þarf nú að rita hér og ætla ég að hlífa ykkur við því að taka fyrir titringinn á Vatnsnesi. Hins vegar finnst mér við hæfi að minnast á það að Kormákur er með lið í yngri flokkum í körfuknattleik aftur eftir sex ára hlé, þegar stelpur og strákar í 8. bekk léku sína fyrstu leiki á Íslandsmóti í september. Það er fagnaðarefni og er ég þakklátur fyrir að fá að taka þátt í því verkefni sem þjálfari.

Fyrsta mótið hjá strákunum var á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Þingeyri. Ég rúllaði um Vestfirðina hljóðljóst á rafmagnsbíl og var mættur í höfuðborgina á sunnudeginum að fylgja stelpunum eftir. Ferðalagið fór eitthvað yfir 1000 km en gekk engu að síður snurðulaust fyrir sig. Það hjálpaði til að hleðslustöðvar voru á stöðunum sem ég kom við á og það vildi svo skemmtilega til að ein var við íþróttahúsið á Þingeyri, sem ég gat nýtt mér án endurgjalds. Ég velti fyrir mér af hverju við hér á Hvammstanga erum ekki komin inn í framtíðina í þessum málum? Framtíðin kom nefnilega fyrir tveimur til þremur árum síðan og er ekkert að fara.

Næsti áskorandi er hinn gáskafulli Patrekur Óli Gústafsson. Himnasending sem okkur barst hingað í Húnaþing vestra. Það verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni en honum eru allir vegir færir! Ég er spenntur að sjá hvað hann hefur að segja.

Áður birst í 39. tbl. Feykis  2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir