Covid-smituðum fjölgar á Norðurlandi vestra

Taflan sýnir dreifingu þeirra sem eru í einangrun eða sóttkví eftir landshlutum. MYND: COVID.IS
Taflan sýnir dreifingu þeirra sem eru í einangrun eða sóttkví eftir landshlutum. MYND: COVID.IS

Um 2,5% þjóðarinnar, eða 9.125 manns, er nú í einangrun vegna Covid-smita og um 2% til viðbótar eru í sóttkví og fullyrða má að þetta séu tölur sem svartsýnustu spámenn hefði ekki órað fyrir þegar Ómikron-afbrigðið lét á sér kræla á aðventunni. Góðu fréttirnar eru þær að þessari nýjustu bylgju faraldurins fylgja sjaldnast alvarleg veikindi en 30 manns eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid. Fæstir eru í einangrun á Norðurlandi vestra, alls 41 maður og 64 sátu í sóttkví á sama tíma skv. töflu á Covid.is í morgun, en tölur yfir smitaða fara hækkandi í öllum landshlutum.

Athygli vekur að flestir þeirra sem sæta einangrun á landinu eru á aldrinum 18-29 ára eða 2.479, næstflestir á aldursbilinu 30-39 eða 1.533, og þar á eftir þau sem eru á aldrinum 40-49 ára, alls 1.147 manns.

Í töflu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra sem birt var í gærdag mátti sjá að ríflega helmingur smita á Norðurlandi vestra var á Sauðárkróki, þá 21 af 37 smituðum, og álíka fjöldi var í sóttkví á Króknum. Smit var að finna í flestum póstnúmerum á svæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir