Covid smit á hraðri uppleið

Tafla af FB-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Tafla af FB-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra fyrr í dag segir frá áframhaldandi aukningu á smitum í umdæminu: „Töluverð hreyfing er á töflunni, en enn sem komið er eru fleiri ný smit að koma inn en þau sem að eru að detta út.“

Fjölgað hefur um 17 manns í einangrun á Norðurlandi vestra frá því í gær, mest á Sauðárkróki þar sem 15 manns hafa greinst með Covid. Lítilsháttar breytingar hafa orðið annars staðar í umdæminu, ýmist fjölgað eða fækkað eftir póstnúmerum.

2.881 smit greindist innanlands síðasta sólarhring og eru 11.494 í einangrun á landinu öllu, 50 á sjúkrahúsi og þrír á gjörgæslu. Þá hafa alls 99.764 Covid-19 smit verið staðfest frá 28. febrúar 2020 sem gerir að minnst 26,2% íbúa hafi greinst með veikina en 2.040 manns hafa endursmitast.

Landspítali er enn á hættustigi en þar liggja 44 sjúklingar með Covid og segir á heimasíðu spítalans að þeir þrír sem eru á gjörgæslu séu allir í einangrun en enginn í öndunarvél.

„Síðasta sólarhring bættust 7 sjúklingar í hópinn og 11 voru útskrifaðir eða einangrun aflétt. Nú eru 342 starfsmenn í einangrun en síðasta sólarhring greindust tæplega 50 starfsmenn. Frá 15. desember til og með 16. febrúar hafa 1.463 starfsmenn Landspítala greinst með COVID og ýmist lokið einangrun eða eru í einangrun,“ segir í tilkynningu frá farsóttanefnd en í gær greindist metfjöldi smita eða tæplega 3.000 en að auki komu tæplega 900 jákvæð sýni inn eftir miðnætti sem teljast þá með smitum dagsins í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir