Smekklega settir ljóðstafir - Stefjagróður Ingólfs Ómars
Út er komin ljóðabókin Stefjagróður eftir Skagfirðinginn Ingólf Ómar Ármannsson. Hann er fæddur á Sauðárkróki 1966 og ólst þar upp, byrjaði snemma að yrkja og er í dag einn þekktasti hagyrðingur landsins.
„Hefðbundna ljóðið er sívinsælt meðal Íslendinga. Háttbundin hrynjandi, fallegt og vel útfært rím og smekklega settir ljóðstafir, allt á þetta einhverja dularfulla samsvörun í tilfinningalífi okkar. Þegar við heyrum vel ort ljóð, þar sem öllum þessum þáttum eru gerð skil, gleður það eyrað á einhvern þann hátt sem ekkert annað getur gert,“ segir höfundur á bókarkápu.
Ingólfur Ómar stundaði vinnu til sjós og lands og þekkir bæði landið og miðin, hestamaður af lífi og sál og náttúruunnandi og því má sjá bregða fyrir í kveðskap hans:
Hálsinn reistur, hýr er brá,
hófa geyst fer -ljónið.
Hrjóta gneistar grjóti frá,
Greitt er þeyst um frónið.
Og hugurinn leitar gjarnan til upprunans:
Röðull fagur brosir blítt,
baða haga jarðar.
Alla daga hugsa hlýtt
heim til Skagafjarðar.
Á Facebooksíðu segir Ingólfur Ómar að bókin fáist keypt á 3500 krónur beint frá bónda.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.