Hvernig viljum við sjá Safnaðarheimilið okkar í framtíðinni?
Húsið að Aðalgötu 1 á Sauðárkróki á l12 ára sögu að baki og þjónaði sem sjúkrahús Skagfirðinga í rúm 50 ár. Frá árinu 1965 hefur húsið verið notað sem safnaðarheimili fyrir Sauðárkrókssöfnuð og þar fer fram margvísleg starfssemi á vegum safnaðarins. Einnig hafa ýmis frjáls félagasamtök aðgang að húsnæðinu fyrir starfsemi sína. Kominn er tími á mikið viðhald á húsnæðinu og einnig krafa um úrbætur í aðgengismálum og hefur það kallað á svar við því ,,hvernig viljum við sjá Safnaðarheimilið okkar í framtíðinni.“
Húsið var byggt sem sjúkrahús árið 1906 og tekið í notkun í byrjun árs 1907. Það var teiknað af Jóni Þorlákssyni landsverkfræðingi og samningur gerður við J. Gunnarsson & S. Jóhannesson á Akureyri að byggja húsið. Viðbygging var byggð við suðurstafn hússins árið 1922, teiknuð af Steindóri Jónssyni. Hlutverk hússins breyttist árið 1961 er nýtt sjúkrahús var tekið í notkun á Sauðárkróki. Í kjölfarið keypti Sauðárkróksbær hlut sýslunnar í húsinu og hafði það til ýmissa afnota um sinn. Árið 1965 keypti sóknarnefnd Sauðárkrókssafnaðar húsið til að hafa þar safnaðarheimili.
Vesturhlið hússins þar sem gert er ráð fyrir nýrri viðbyggingu. Mynd: PF.
Húsið var í mikilli niðurníðslu og lauk endurbótum á því árið 1979. Á þessum tíma var ekki mikið hugsað um að halda í upprunalega útlitsmynd og urðu þá töluverðar útlitsbreytingar á húsinu. Vegna aldurs eru því bæði kirkjan og safnaðarheimilið friðuð og innan þess reits sem kallast verndarsvæði í byggð á Sauðárkróki.
Fyrir tæpum þremur árum fór sóknarnefnd að skoða af alvöru hvernig bæta mætti aðgengi bæði utan húss og innan og komst að þeirri niðurstöðu mjög fljótt að ekki væri hægt að leysa þessi aðgengismál með góðu móti án þess að byggja við húsið. Einnig horfði nefndin til þess að kirkjan er til þess að gera nýuppgerð, og mundi þjóna söfnuðinum næstu 50 til 80 árin og það sama verði safnaðarheimilið að gera. Síðan og ekki síst sú nöturlega staðreynd að salernis- og snyrtiaðstaða fyrir hreyfihamlaða er engin, hvorki í kirkju eða safnaðarheimili. Leitað var til Stoð verkfræðistofu um ráðgjöf og hönnun, og var það Magnús Ingvarsson sem bar hita og þunga af þeirri vinnu. Fyrst var húsið allt mælt upp og teiknað eins og næst varð komist að upprunalegu útliti þess, veggir opnaðir og ástand þeirra kannað.
Síðan var teiknuð viðbygging sem hýsa skyldi þær hugmyndir sem sóknarnefnd hafði um framtíðarsýn og ákvarðaðist stærð viðbyggingar og útlit að hluta til við þær hugmyndir. Gert er ráð fyrir 70 fermetra viðbyggingu að grunnfleti út frá vesturhlið gamla hússins, kjallari hæð og ris. Aðalinngangurinn verður inn í viðbygginguna ásamt lyftu og stiga, snyrtingu fyrir hreyfihamlaða og einu herbergi á hverri hæð.
Suðurhlið Safnaðarheimilisins en viðbyggingin teygir sig í vestur. Teikningar Stoð ehf.
Tvisvar hefur verið boðað til fundar til kynningar á verkefninu en mjög fáir safnaðarmeðlimir sýndu því áhuga eða sögðu skoðun sína á verkefninu. Tilefni þessara greinarskrifa er meðal annars að leita eftir því hvað safnaðarmeðlimum finnst um þessar hugmyndir. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir Kirkjuráð, Minjastofnun og skipulags- og byggingarfulltrúa Skagafjarðar og ekki verið gerð nema ein athugasemd, sem verið er að betrumbæta.
Það er mikilvægt að vel takist til, þetta hús er í hjarta gamla bæjarhlutans og það er alls ekki sama hvernig húsið kemur til með að líta út. Skipuð hefur verið sérstök byggingarnefnd fyrir verkið og einnig fjáröflunarnefnd til að hefja undirbúning við fjármögnun. Bent er á netfangið soknarnefnd@saudarkrokur.net, fyrir þá sem vilja koma með athugasemdir eða ábendingar. Einnig skal bent á það að dagana 1. og 2. október verða teikningar af fyrirhugaðri byggingu til sýnis í safnaðarheimilinu milli klukkan 15:00 og 18:00 hvorn dag.
Teikning sem sýnir hvernig byggja skal við Safnaðarheimilið.
Það er deginum ljósara að til að gera þetta verkefni að veruleika þarf mikla fjármuni, fjáröflunarnefnd mun leita ýmissa leiða til fjármögnunar og m.a. til fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga um stuðning á næstu vikum og mánuðum. Þau sem áhuga hafa á að styrkja málefnið er bent á að leggja inn á eftirfarandi reikning í Arionbanka. Söfnunarreikningur vegna aðgengismála nr. 0310 -22-000980 kt. 560269-7659.
Einnig skal á það bent að hægt verður að gerast styrkfaraðili safnaðarheimilisins með föstum framlögum í hálft ár, eitt ár, eða bara eftir því sem hver og einn vill. Þeir sem þess óska geta sent inn beiðni á uppgefið netfang. Einnig kemur til greina að stofna hollvinasamtök safnaðarheimilisins.
Það er von sóknarnefndar að sem flestir sjái sér fært að styðja á einhvern hátt við endurbyggingu á safnaðarheimilinu okkar.
@Ingimar Jóhannsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.